1. Forsíða
  2. Kennarar ríða á vaðið: Rafræn leyfisbréf á Ísland.is

Kennarar ríða á vaðið: Rafræn leyfisbréf á Ísland.is

Markmið vefsins Ísland.is er að bæta stafræna þjónustu við almenning og gera hana skýrari og hraðvirkari. Nú er unnið að því að einstaklingar geti nálgast upplýsingar um starfsleyfi sín í gegnum vefinn og þar ríða kennarar á vaðið. Leyfisbréf kennara verða aðgengileg í gegnum Ísland.is og í fyrsta fasa verkefnisins eru þegar aðgengileg útgefin leyfisbréf frá 1. janúar 2020.

Leyfisbréf, sem er staðfesting á réttindum til kennslu og til að bera starfsheitið kennari, eru aðgengileg með rafrænum skilríkjum á Mínum síðum á uppfærðum vef Ísland.is. Leyfisbréf sem gefin voru út fyrir 1. janúar 2020 munu bætast í gagnagrunninn á næstu misserum. Menntamálastofnun annast útgáfu leyfisbréfa til kennara og veitir nánari upplýsingar um þau. Nú er gefið út eitt leyfisbréf þvert á skólastig leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Þetta er frábært skref sem sparar bæði tíma og fyrirhöfn. Við gleðjumst yfir því að kennarar verði þeir fyrstu sem geta nýtt sér þessa mikilvægu þjónustu og nálgast leyfisbréf sín á öruggan og milliliðalausan hátt á Ísland.is.“

Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:
„Við höfum átt frábært samstarf við Menntamálastofnun um þetta verkefni. Vefurinn Ísland.is er í örri þróun og sífellt fleiri þjónustuþættir að bætast við – við hvetjum alla til þess að fylgjast vel með og nýta sér vefinn. Starfsleyfi fleiri fagstétta eru í vinnslu og er meðal annars ráðgert að starfsleyfi heilbrigðisstarfsfólks bætist við á vefinn í sumar.“

Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar:
„Við hjá Menntamálastofnun fögnum þessum áfanga í bættri þjónustu við kennara. Samstarfið við Stafrænt Ísland hefur skipt sköpum fyrir okkur í að hrinda verkefnum sem þessum í framkvæmd. Vonandi er þetta aðeins fyrsta skrefið af mörgum í þróun stafrænnar þjónustu í þágu menntunar.“

Sömuleiðis er unnið að því að birta niðurstöður samræmdra könnunarprófa grunnskólanema á vef Ísland.is og er þar þegar að finna niðurstöður nemenda sem tóku prófin árin 2020 og 2021.

Vinna við gerð gagnagrunnsins hófst vorið 2020 og er liður í fjárfestingarátaki vegna þróunar stafrænnar þjónustu. Verkefnið er unnið í samstarfi Menntamálastofnunar, Stafræns Íslands og háskólanna.

skrifað 10. MAí. 2021.