1. Forsíða
  2. Kennarar skapa og skrifa

Kennarar skapa og skrifa

Nú á haustdögum hófst námskeið í skapandi skrifum fyrir kennara í grunnskólum. Til leiks var boðið um 60 kennurum Fossvogsskóla og Auðarskóla í Búðardal sem sýnt hafa áhuga á að auka ritunarkennslu í sínu  starfi. Námskeiðið er tilraunaverkefni Menntamálastofnunar í samstarfi við Menntavísindasvið HÍ, ritlistarkennara HÍ, Rithöfundasambandið og Sköpunarskólann.

Markmið námskeiðsins er tvíþætt. Fyrir áramót fá kennarar sjálfir kennslu í skapandi skrifum og eftir áramót er farið nánar í kennsluaðferðir og hvernig hægt er að búa til skapandi umhverfi í skólastofunni.

Davíð Stefánsson rithöfundur stýrir kennslunni og leggur áherslu á áhrifamátt smæstu eininga tungumálsins, eðli sköpunar og mikilvægi frelsis, flæðis, hlustunar og þess að þora að skapa. Hann leggur einnig áherslu á ritun sem leið til að styrkja læsi og áhuga á íslenskri tungu. „Ég tala um þrá mannkyns eftir gátum, bröndurum og sögum og hvernig allir eru skapandi verur í eðli sínu. Tungumálið er magnað fyrirbæri og stakt orð getur haft mikil áhrif, myndað óteljandi tengingar og kallað fram ólík hughrif. Ég ræði líka við kennara um flæði, frelsi og að leyfa sér að dansa og leyfa sér að dæma ekki meðan maður dansar,“ segir Davíð þegar hann er spurður út í áherslur á námskeiðinu. „Það er mín bjargfasta trú að hver einasta manneskja sé skapandi vera, alla daga (og meira að segja allar nætur, í draumum). Þess vegna finnst mér mikilvægt að sem flestar manneskjur öðlist trú á eigin sköpunarþrótt og þori að gera eitthvað við hann.“

Davíð segir kennarana vera mjög áhugasama og góða nemendur og hlakkar til næstu heimsókna.

skrifað 09. NóV. 2018.