1. Forsíða
  2. Kennsluefni til að efla orðaforða og lesskilning barna verðlaunað

Kennsluefni til að efla orðaforða og lesskilning barna verðlaunað

Ljósmyndari: Kristinn Ingvarsson

Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands 2023 voru afhent við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands mánudaginn 22. maí. Eitt af þeim verkefnum sem hlutu verðlaun var Íslenskur námsorðaforði og stigvaxandi fjölbreytni íslenskrar tungu: Markvissir kennsluhættir í grunn- og framhaldsskólum.

Að verkefninu standa Sigríður Ólafsdóttir, dósent við deild kennslu- og menntunarfræða, Auður Pálsdóttir, dósent við Deild faggreinakennslu, og Hanna Óladóttir, lektor við sömu deild. Verkefnið er unnið í samstarfi við fræðafólk við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Hugvísindasvið HÍ og sérfræðinga hjá Menntamálastofnun. 

Hlutverk sérfræðinga hjá Menntamálastofnun var að vinna að fræðilegri þróun og skilgreiningum á fræðiorðaforða/námsorðaforða, rýna í málheildina og sníða orðaforðann til. Þá komu þeir einnig að þróun á námsorðaforðaprófi.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir menntun barna á Íslandi að það sé til efni sem styður markvisst við lesskilning þeirra. Þá er ekki síður mikilvægt að efnið nýtist til að við styðja við þann fjölda barna hér á landi sem læra íslensku sem annað tungumál“ segir Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Menntamálastofnunar.

Tilgangurinn með verkefninu er að bregðast við hnignandi lesskilningi íslenskra nemenda og áskorunum í menntun nemenda með annað móðurmál en íslensku. Verkefnið byggist á nýjum lista yfir íslenskan námsorðaforða. Þekking á slíkum orðaforða er nauðsynleg til að nemendur nái að skilja og fjalla um viðfangsefni námsins. Rannsóknarverkefnið felur einnig í sér ritun gæðatexta með námsorðaforðanum og kennsluleiðbeiningar sem ætlaðar eru í kennslu grunn- og framhaldsskólanema sem læra íslensku sem annað tungumál. Unnið er með stigvaxandi fjölbreytni í orðaforða, lesskilningi, umræðu- og ritunarfærni sem saman leggja mikilvægan grunn að námsframvindu nemenda. Hluti af verkefninu er íslenskt námsorðaforðapróf sem er fyrst sinnar tegundar hér á landi og gefur möguleika á að kortleggja íslenskan orðaforða grunnskólanema.

skrifað 24. MAí. 2023.