Í gær var ýtt úr vör verkefni sem ber heitið Kóðinn 1.0 og snýst um að kynna grunnatriði forritunar fyrir nemendum í 6. og 7. bekk grunnskóla. Um er að ræða samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis, Samtaka iðnaðarins ásamt fyrirtækjum í tæknigeiranum.
Verkefnið á vef KrakkaRÚV
Menntamálastofnun kom að verkefninu vegna tengingar við aðalnámskrá grunnskóla, til að sinna ráðgjöf við framleiðslu á kennslumyndböndum og veita ráðgjöf við önnur atriði, svo sem samskipti við skóla og utanumhald á dreifingu tölva.
Skólar geta sótt um að taka þátt í verkefninu á vef KrakkaRÚV en nú þegar hafa 17 skólar sótt um tölvur. Hægt verður að leysa verkefni í gegnum vef KrakkaRÚV en kennarar geta einnig fengið aðstoð á vef Menntamálastofnunar.
Tölvum dreift í skóla
BBC micro:bit tölvur eru notaðar í verkefninu og verður þeim dreift í skóla þeim að kostnaðarlausu eins og öll aðstoð við kennara. Ýmis fyrirtæki í þekkingariðnaðinum koma að þeirri vinnu og skólarnir haka við þann valkost þegar þeir sækja um að fá tölvurnar afhentar.
Nemendur munu nota JavaScript forritunarviðmót sem hefur verið þróað af Microsoft og er aðgengilegt á vef Menntamálastofnunar og KrakkaRÚV. Viðmótið verður þýtt yfir á íslensku en til að byrja með verður notast við textann úr kennslumyndböndum KrakkaRÚV.
Ísland er fyrsta landið utan Bretlands sem tekur þátt í verkefninu og er fylgst með af áhuga utan landssteinanna hvernig til tekst.