1. Forsíða
  2. Landsteymi hefur verið sett á laggirnar

Landsteymi hefur verið sett á laggirnar

Það er ljóst að við stöndum frammi fyrir breyttu umhverfi og nýjum áskorunum þegar kemur að börnum og skólasamfélaginu. Til að bregðast við þessu hefur Landsteymi, sem starfar á grunni nýrra farsældarlaga og samþættingar á þjónustu í þágu farsældar barna, verið sett á laggirnar og er ætlað að grípa inn í aðstæður með stuðningi og ráðgjöf.

Teyminu er ætlað að vera miðlægt úrræði þar sem börn, foreldrar og starfsfólk skóla getur leitað til að tryggja að kerfi sameinist um að börn fái þann stuðning sem þarf hverju sinni.

Það er mannað af sérfræðingum á sviði hegðunar og líðanar barna, fólki sem hefur mikla reynslu af því að starfa á lausnamiðaðan hátt með börnum, foreldrum og starfsfólki skóla.

Landsteymið starfar undir forystu Menntamálastofnunar en Bóas Valdórsson sálfræðingur og framkvæmdastjóri Sjónarhóls leiðir teymið.

Unnið er að því að setja upp nýja þjónustustofnun. Ljóst er að það mun taka einhvern tíma að koma nýrri stofnun á laggirnar en við ætlum EKKI að bíða á meðan. Það er brýn þörf og sterkt ákall eftir því að stuðningur við börn, foreldra, kennara og starfsfólk á öllum skólastigum verði efldur sem fyrst.

Vefurinn landsteymi.is hefur nú verið opnaður en þar má finna ráðgjöf og stuðning í tengslum við skólamál barna á öllum skólastigum. Það er okkar von að stofnun Landsteymisins verði það framfaraskref sem skólasamfélagið þarf á að halda og hefur verið kallað eftir.

 

skrifað 02. MAí. 2023.