Sumarlesturinn er nú að fara af stað og ber hann heitið Leitin að ævintýraheimum. Það er teiknarinn Ari H. G. Yates sem hefur hannað þetta ótrúlega flotta sumarlestrarverkefni sem nálgast má hjá þátttökubókasöfnum vítt og breitt um landið.
Börn sem taka þátt í verkefninu fá tækifæri til að ferðast um ævintýraheim bókanna með því að lesa myndasögu, fantasíu, vísindabók, hryllingssögu eða sögu sem gerðist fyrir langa, langa löngu og fá svo límmiða sem þau líma inn á ævintýrakortið sitt. Í hvert sinn sem þú skilar bók eða lest bók á bókasafninu getur þú safnað 8 límmiðum úr ólíkum ævintýraheimum og að lokum verður þú lestrarmeistari sumarsins!
Menntamálstofnun og samstarfsaðilar hvetja alla krakka til að skunda á almenningsbókasafnið sitt og taka þátt í sumarlestri því lestur gerir öll snjöll!