1. Forsíða
  2. Lesferill kominn í Skólagátt

Lesferill kominn í Skólagátt

Nú eru fjögur fyrstu læsisprófin úr Lesferli, nýju matstæki Menntamálastofnunar, komin inn í Skólagátt. Allt eru þetta próf sem snúa að umskráningu eða sjálfri lestrartækninni.

Hér er um að ræða lesfimipróf, sem má segja að séu grunnprófin, síðan eru það svonefnd hliðarpróf, sem meta þætti sem allir tengjast eða hafa áhrif á lestrartæknina Hliðarprófin eru: próf í sjónrænum orðaforða, próf í orðleysulestri og nefnuhraðapróf. Öll prófin eru stöðluð fyrir þrjú fyrirlagnartímabil á skólaárinu: september, janúar og maí. Athugið að ekki er hægt að leggja prófin fyrir utan fyrirlagnartíma.

Aðgengi að prófunum er rafrænt, þau eru vistuð inni í Skólagátt og geta kennarar nálgast þau þar til útprentunar. Þar er einnig hægt að nálgast einfaldan bækling með leiðbeiningum um fyrirlögn prófanna. Á næstu dögum verða sett inn í Skólagátt fjögur stutt vefnámskeið þar sem fjallað er um hvert próf fyrir sig.  

Í framtíðinni munu kennarar fá niðurstöður prófanna rafrænt strax eftir að fyrirlögn og innslætti er lokið. Nú í haust lýkur stöðlun prófanna og þess vegna munu niðurstöður að þessu sinni ekki verða aðgengilegar fyrr en í lok október. Samtímis því verða birt viðmið um lesfimi/leshraða fyrir hvern árgang grunnskólans. Til að kennarar geti nýtt sér niðurstöður lesfimiprófanna strax er hægt að nálgast skráningarblöð með úttöldum atkvæða- og orðafjölda inni í Skólagátt.

skrifað 07. SEP. 2016.