1. Forsíða
  2. Lestrarlandakort

Lestrarlandakort

Menntamálastofnun er þessa dagana að leggja lokahönd á undirbúning sumarlestursins 2020. Verkefnið er árviss viðburður og tilgangurinn er að hvetja nemendur til lestrar yfir sumarfrístímann. Rannsóknir sýna að lestrarfærni margra barna hrakar yfir sumartímann vegna ónógrar æfingar og því er afar mikilvægt að hvetja til lestrar í lengri fríum.

Sumarlesturinn 2020 er með svolítið öðru sniði en undanfarin ár en að þessu sinni bjóðum við upp á lestrarlandakort fyrir yngri og eldri nemendur. Landakortin innihalda 7 mismunandi litaðar leiðir og er hver leið tilvísun í ólíkar tegundir bóka.

Með því að kynna ólíkar tegundir bóka fyrir nemendum aukum við líkurnar á að nemendur verði áhugasamari um lestur þar sem þeir eiga auðveldara með að finna sér lesefni sem höfðar til þeirra.

Dæmi um bókatitla úr hverjum flokki eru gefin upp en nemendur velja sjálfir hvaða bækur þeir lesa og hvaða markmið þeir setja sér.

Kynningarbréf varðandi lestrarlandakortin verður sent út í skólana í næstu viku og gert er ráð fyrir að kortunum verði dreift á almenningsbókasöfnin um miðjan maí. Skólarnir geta jafnframt prentað þau út af Læsisvefnum ef þeir kjósa svo.

Lestrarlandakortin eru samstarfsverkefni Menntamálastofnunar, FFÁS, FÍBÚT, Heimilis og skóla, RÚV og SFA.

 

skrifað 08. MAí. 2020.