1. Forsíða
  2. Lestu um áhugamál þín

Lestu um áhugamál þín

Ein af hugmyndum að lestri í sumarlæsisdagatali Menntamálastofnunar er að heimsækja bókasafn og finna bók um áhugamálin.

Hugmynd: Heimsæktu bókasafnið. Hvaða áhugamál áttu? Er til bók um áhugamálið þitt? 

Það er margt í umhverfinu sem fangar huga barna og eru þau uppfull af spurningum um þann heim sem þau búa í. Sumarið er tilvalinn tími til að fylgja áhuga barna eftir með skemmtilegum hugmyndum; sniðugt er að heimsækja bókasafnið í nágrenninu og velja bók sem tengist áhugasviðinu. Starfsmenn bókasafnanna eru sérfræðingar í að finna réttu bækurnar.

Réttu bækurnar geta hjálpað fjölskyldunni að finna svör við spurningum barnanna og þannig uppgötva leyndardóma umhverfisins í sameiningu. Hér eru dæmi um leiðir að skemmtilegum lestrarstundum:

  • Hvað hafa köngulær marga fætur? Veiðum köngulær í krukku og skoðum þær saman; svo er gott að sleppa þeim aftur þar sem við veiddum þær. Finnum bók um köngulær.
  • Hvað eru margir fótboltavellir í nágrenninu? Eigum við að spila á þeim öllum? Finnum bók um fótbolta.
  • Af hverju er bjart á nóttunni? Hvernig væri að vaka einu sinni fram eftir á bjartri sumarnóttu? Finnum bók um dag og nótt, sól og tungl.

Við minnum á að sumarlæsisdagatalið var einnig gefið út á ensku og pólsku.

Ekki þarf að greiða fyrir bókasafnsskírteini fyrir börn yngri en 18 ára.

skrifað 29. JúN. 2018.