1. Forsíða
  2. Lestur er bestur í sumarfríinu

Lestur er bestur í sumarfríinu

Nú fer að líða að sumarleyfum og skólarnir fara í frí. Við taka skemmtilegar samverustundir og námskeið af ýmsum toga. Í leik og starfi í góða veðrinu vill lesturinn stundum gleymast enda á bókin oft í harðri samkeppni við hina ýmsu miðla. Til að fyrirbyggja afturför í lesfimi geta foreldrar hvatt börnin sín til að lesa og það er hægt að gera með ýmsum hætti:

  • Með því að hafa gott aðgengi að bókum t.d. með reglulegum ferðum á bókasafnið.
  • Lestrarefnið þarf að höfða til áhuga barnsins.
  • Lestrarefnið þarf að vera á réttu þyngdarstigi fyrir barnið (miðað við aldur og lestrargetu).
  • Hvetjum börnin til að velja sér fjölbreytt lestrarefni t.d. skáldsögur, tímarit, dagblöð, ljóð, kort, myndasögur.
  • Verum dugleg að ræða við börnin okkar um það sem þau eru að lesa.
  • Höldum áfram að lesa fyrir börnin okkar jafnvel þótt þau séu farin að lesa sjálf.
  • Hjálpum börnunum að setja sér markmið með sumarlestrinum t.d. að lesa tiltekinn fjölda bóka eða fjölbreytt lestrarefni.
  • Gaman og gagnlegt getur verið að styðjast við lestrarbingó og lestrardagatal.
  • Förum á bókasafnið og finnum skemmtilegt lestrarefni.
  • Skoðum viðburði sem bókasöfnin bjóða upp á s.s. sögustund í náttfötum, sumarnámskeið og ritsmiðjur.
  • Höfum lestrarefni og ritföng með í ferðalagið og jafnvel hljóðbækur í bílinn.
  • Nýtum umhverfið og bendum á fjölbreyttan lestexta á skiltum.
  • Sköpum jákvætt og spennandi lestrarumhverfi t.d. með því að lesa á ólíkum og jafnvel óvenjulegum stöðum.
  • Munum að foreldrar og eldri systkini eru fyrirmyndir, verum öll dugleg að taka okkur bók í hönd.

Sumarfrí frá skóla stendur í u.þ.b. 11 vikur; á þeim tíma getur lesfimi einstaklings minnkað umtalsvert ef ekkert er lesið. Það er gríðarlega mikilvægt að halda lestrarfærninni við því rannsóknir sýna:

  • Að lestrarfærni allra barna hrakar í sumarfríinu.
  • Að börnum, sem eiga erfiðast með lestur, fer mest aftur í lestrarfærni yfir sumartímann.
  • Að á einu skólaári getur afturför endurspeglað allt að þriggja mánaða mun á lestrarfærni milli nemenda.
  • Að í fyrstu sex bekkjunum getur þessi munur endurspeglað allt að eitt og hálft ár af lestrarfærni, einungis af völdum minnkandi lesturs yfir sumarmánuðina.

Verum dugleg að vekja og viðhalda áhuga barnanna okkar á sumarlestri til að auka lestrarfærni þeirra.

* Hér er greinin Lestur er bestur í sumarfríinu í útprentanlegu formi.

skrifað 07. JúN. 2017.