Menntamálastofnun og Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri munu standa fyrir læsisráðstefnu 14. september á Akureyri. Heiti ráðstefnunnar er „Hvað er að vera læs?“ og verður leitað svara við þeirri spurningu og hvernig skapa megi æskileg skilyrði í námi frá sjónarhóli leikskólans, grunnskólans og framhaldsskólans.
Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar verða:
- Bragi Valdimar Skúlason fjölmiðlamaður, orðarýnir og orðasmiður.
- Guðmundur Engilbertsson deildarforseti við kennaradeild HA sem mun fjalla um læsi á stigi djúp- og yfirfærslunáms á efri skólastigum.
Auk þrískiptra erinda eftir skólastigum:
- Jóhanna Thelma Einarsdóttir prófessor við heilbrigðisvísindasvið HÍ sem mun fjalla um stöðu fjöltyngdra leikskólabarna á Íslandi.
- Auður Soffíu Björgvinsdóttir aðjúnkt og doktorsnemi við menntavísindasvið HÍ og Guðbjörg R. Þórisdóttir læsisráðgjafi hjá MMS sem munu fjalla um mikilvægi sveigjanleika í heimalestrarþjálfun út frá stöðu nemenda í lestri.
- Ívar Rafn Jónsson lektor við HA sem mun fjalla um læsi framhaldsskólanema á orðræðu og hugtakanotkun sem er við lýði í námsmati. Til viðbótar verður svo fjöldi mál- og vinnustofa sem ráðstefnugestir geta valið sig á.