1. Forsíða
  2. Menntamálastofnun og Ungmennaráð Samfés í samstarf

Menntamálastofnun og Ungmennaráð Samfés í samstarf

Menntamálastofnun og Ungmennaráð Samfés hafa skrifað undir yfirlýsingu um samstarf sem stuðla á að auknum áhrifum ungs fólks á málefni menntunar og verkefni stofnunarinnar.

Markmið samstarfsins er að ungt fólki fái tækifæri til að kynna sér upplýsingar og gögn sem verða til hjá Menntamálastofnun og nýta sér þekkingu innan stofnunarinnar. Þannig geti ungt fólk myndað sér skoðun á menntamálum og látið hana í ljósi. Jafnframt fær Menntamálastofnun möguleika á að leita eftir afstöðu ungs fólks og fá álit þeirra á þeim málefnum sem hún vinnur að.

Í upphafi verður áhersla lögð á samstarf um aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla, námsmat og námsgögn en það eru forstjóri Menntamálastofnunar og framkvæmdastjóri Samfés sem hafa yfirumsjón með skipulagi samstarfsins.

Victor Berg Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samfés:
„Samstarfið markar viss tímamót í virku samtali og skipulagðri aðkomu ungs fólks. Með því að efla virka þátttöku ungs fólks á aldrinum 13-25 ára á landsvísu er verið að tryggja að rödd þeirra og álit hafi áhrif á ákvörðunartöku þegar kemur að menntamálum í framtíðinni.“ 

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar:
„Með þessu samstarfi opnast aukin tækifæri til að fá fram sjónarmið ungs fólks og afstöðu til þeirra margvíslegu verkefna sem Menntamálastofnun sinnir. Þannig getum við betur komið til móts við þarfir nemenda og stuðlað að aukinni virkni þeirra og áhrifum.“

Tvö öflug ungmennaráð
Eitt af mikilvægustu hlutverkum Samfés er að halda úti og styðja við tvö öflug ungmennaráð samtakanna. Ráðin eru aldursskipt, fulltrúar Ungmennaráðs Samfés eru á aldrinum 13-16 ára og fulltrúar Ungmennaráðs ungmennahúsa Samfés eru á aldrinum 16-25 ára. Ungmennaráð Samfés tók til starfa á Landsmóti Samfés 2006, eftir að tillaga um stofnun þess var samþykkt á aðalfundi fyrr á sama ári. Ungmennaráð ungmennahúsa Samfés var stofnað formlega 2019 af frumkvæði ungs fólks eftir Landsþing ungmennahúsa.

    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

skrifað 27. MAí. 2021.