1. Forsíða
  2. Menntamálastofnun veitir aðgang að samræmdum könnunarprófum

Menntamálastofnun veitir aðgang að samræmdum könnunarprófum

Menntamálastofnun mun á næstu dögum veita aðgang að samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk. Um er að ræða próf í íslensku og stærðfræði sem lögð voru fyrir haustin 2016 og 2017. Nemendur höfðu áður aðgang að niðurstöðum sínum og svokölluðum sýnisprófum sem eru próf með sambærilegum spurningum. Nú munu nemendur og aðrir fá aðgang að þeim spurningum sem voru notaðar í prófinu sjálfu.

Þann 16. mars sl. kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp úrskurð í þremur málum sem varða aðgang að prófspurningum samræmdra könnunarprófa í 4. og 7. bekk. Menntamálastofnun hafði synjað um aðgang að prófspurningum þar sem til stóð að þróa einstaklingsmiðuð próf. Einstaklingsmiðuð próf byggja á stórum banka af prófspurningum og því ekki hægt að þróa slík próf ef semja þarf ný prófatriði fyrir hverja fyrirlögn. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst ekki á að tilfelli sem þessi falli undir undanþáguheimildir upplýsingalaga og því er Menntamálastofnun gert að afhenda umrædd próf.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun á næstunni skipa starfshóp sem ætlað er að gera tillögu um framtíðarstefnu um samræmd könnunarpróf. Mun sá hópur væntanlega fjalla um fyrirkomulag einstaklingsmiðaðra prófa og gera tillögur um leiðir í þróun þeirra. Menntamálastofnun hefur nú þegar gert aðgengileg fyrir skóla svokölluð Lesferilspróf sem þróuð hafa verið í tengslum við Þjóðarsáttmála um læsi. Þau próf bjóða upp á meiri sveigjanleika og hafa aðra skírskotun til aðalnámskrár en samræmd könnunarpróf.

Þessi ákvörðun úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur engin áhrif á samræmd könnunarpróf í 9. bekk sem verða endurtekin í vor og í haust.  Fyrirlögn þeirra prófa mun standa fram til haustsins 2018 og ekki er unnt að opna þau próf fyrr en fyrirlögn er lokið.

skrifað 20. MAR. 2018.