1. Forsíða
  2. Náttúran okkar | Nýtt námsefni í náttúrufræði

Náttúran okkar | Nýtt námsefni í náttúrufræði

Í dag er alþjóðlegur dagur votlendis og því vel við hæfi að kynna nýtt námsefni í náttúrufræði sem ber heitið Náttúran okkar.

Þar læra nemendur á miðstigi um margvísleg umhverfisvandamál og hvað hægt er að gera til að finna lausnir á þeim. Fjallað er um stór umhverfisvandamál eins og tap á lífbreytileika (líffræðilegri fjölbreytni), loftslagsmál og landeyðingu og hvernig hægt er að nota vistheimt til að leysa þessi vandamál. Vistheimt eða endurheimt vistkerfa er ferli sem hjálpar náttúrunni að lækna sig sjálfa þegar vistkerfi hefur hnignað/skemmst.

Námsefninu er ætlað að efla umhverfisvitund nemenda, gagnrýna hugsun og gefa þeim kost á að fjalla um hugtök eins og ágengar framandi lífverur, gróður- og jarðvegseyðingu, landhnignun, landlæsi, lífbreytileika, loftslagshamfarir, náttúruvernd, vistheimt, þjónustu vistkerfa og örfoka land.

Náttúran okkar samanstendur af rafbók, verkefnavef og kennsluleiðbeiningum. Námsefnið kemur úr smiðju Vistheimtar með skólum líkt og Náttúra til framtíðar og kennarar geta nýtt það sem ítarefni fyrir kennslu á námsefninu fyrir miðstig. Einnig er vel hægt að aðlaga verkefnin í Náttúra til framtíðar þannig að þau henti miðstigi og öfugt.

Kynningarmyndband með námsefninu

skrifað 02. FEB. 2023.