1. Forsíða
  2. Ný Eurydice skýrsla

Ný Eurydice skýrsla

Út er komin samanburðarskýrsla á vegum Eurydice samstarfsins um lengd skólaársins á grunn- og framhaldsskólastigi. Skýrslan nær til 36 Evrópulanda og ber saman heildarfjölda skóladaga og uppbyggingu skóladagatala.

Í skýrslunni kemur fram að flest lönd hefja skólaárið í byrjun september og algengasti fjöldi skóladaga í grunn- og framhaldsskólum er á bilinu 170 - 190. Á Norðurlöndunum byrjar skólaárið hins vegar í ágúst og þar eru fæstir skóladagar í Svíþjóð (178) og á Íslandi (175-180) en flestir í Danmörku (200).

Nokkur munur er á lengd sumarleyfa skóla á Norðurlöndunum (sjá mynd).

Í grunnskólum eru leyfin lengst á Íslandi (11 vikur) og í Finnlandi (10 – 11 vikur) en styst í Danmörku (um 6 vikur). Ólíkt öðrum Norðurlöndum er lengd skólaárs í íslenskum framhaldsskólum frábrugðin þeirri í grunnskólum og sjá má á myndinni að sumarleyfi á framhaldsskólastigi er lengst á Íslandi (12 vikur).

Sé litið til fleiri landa sýnir skýrslan að töluverður munur getur verið þeirra á milli. Skóladagar eru fæstir 156 (Albanía, grunnskólastig) en flestir 200 (Danmörk og Ítalía) og sumarleyfi eru  allt að 15 vikna löng (Búlgaría). Haustfrí, vorfrí og páskaleyfi eru einnig mislöng milli landa en jólafrí jafn langt í nánast öllum löndunum eða tvær vikur. Í öllum löndum eru til viðbótar almennir frídagar og getur verið einhver munur á fjölda þessara daga milli landa.

Skýrsluna í heild má nálgast hér

skrifað 26. SEP. 2018.