1. Forsíða
  2. Ný Eurydice-skýrsla - samanburður á lengd skólaárs og fjölda frídaga á grunn- og framhaldsskólastigi í Evrópu

Ný Eurydice-skýrsla - samanburður á lengd skólaárs og fjölda frídaga á grunn- og framhaldsskólastigi í Evrópu

Eurydice-rannsóknin The Organisation of School Time in Europe: Primary and General Secondary Education – 2019/20 komin út.

Viðfangsefni rannsóknarinnar er lengd og fyrirkomulag skólaársins 2019-2020 á grunn- og framhaldsskólastigi. Rannsóknin nær til 38 Evrópulanda, meðal annars allra Norðurlandanna. Í skýrslunni má finna samanburðarhæfar töflur um lengd skólaársins og heildarfjölda skóladaga, þar með talið virkra kennsludaga en í rannsókninni má einnig finna yfirlit yfir fjölda frídaga í hverju landi. 

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að flest lönd hefja skólaárið í byrjun september og er algengasti fjöldi skóladaga í grunn- og framhaldsskólum á bilinu 170-190. Á Íslandi er fjöldi skóladaga 180 á ári sem liggur á meðaltali fjölda skóladaga í Evrópu.

Af Norðurlöndunum fimm eru fæstir skóladagar í Svíþjóð eða 178 dagar á ári. Þar næst kemur Ísland með 180 skóladaga. Þá koma Noregur og Finnland með fjölda skóladaga um og rétt undir 190 á ári. Fjöldi skóladaga er mestur í Danmörku eða 200 skóladagar á ári en Danmörk er ásamt Ítalíu með lengsta skólaárið í Evrópu.

Fjöldi skólafrídaga er einnig misjafn. Af Norðurlöndunum er lengsta sumarfríið á bilinu 9-11 vikur en það á við um Ísland, Svíþjóð og Finnland. Í Noregi er skólafrí á sumrin á bilinu 7-9 vikur. Danmörk sker sig verulega úr Norðurlandahópnum en danskir nemendur verða að láta sér nægja sumarfrí sem er undir sjö vikum að lengd. Ef litið til allra landa sem rannsóknin nær til má sjá að töluverður munur getur verið á fjölda og lengd skólafría en oftast er samt skólaárið svipað að lengd í Evrópu þegar heildarfjöldi skóladaga er skoðaður. Þetta og fleira um evrópska skólaárið má sjá í skýrslunni sem lesa má í heild sinni hér.

Sambærilega skýrslu Eurydice um skipulag háskólastigsins má nálgast hér.

 

skrifað 20. SEP. 2019.