1. Forsíða
  2. Ný EURYDICE skýrsla – Vaxandi hreyfanleiki milli landa í háskólanámi og starfsnámi

Ný EURYDICE skýrsla – Vaxandi hreyfanleiki milli landa í háskólanámi og starfsnámi

Alls er fjallað um menntakerfi 39 Evrópuríkja í nýrri skýrslu Eurydice, samstarfsnets Evrópusambandsins (ESB) um menntamál, um hreyfanleika háskólanema og nemenda í starfsnámi milli ríkja í álfunni. Þróaðir hafa verið sex samsettir mælikvarðar (e. Mobility Scoreboard) á hreyfanleika nemendanna, m.a. út frá því hvort nýta megi námslán og styrki við nám á erlendri grundu, hversu vel sé staðið að upplýsingagjöf um tækifæri til náms í öðrum ríkjum og hvort prófskírteini og starfsréttindi njóti gagnkvæmrar viðurkenningar milli ríkja. Sambærileg skýrsla var áður gefin út árið 2016 og nú er þróunin m.a. metin frá þeim tíma. Framkvæmdastjórn ESB hefur frá árinu 2011 hvatt til aðgerða til auka hreyfanleika nemenda milli ríkja í því skyni að auka víðsýni og færni nemendanna sjálfra og auka um leið gæði menntakerfa og einstakra menntastofnana.

Vægi tungumálakennslu mikið hérlendis

Í skýrslunni kemur m.a. fram að Ísland er eitt níu Evrópuríkja sem uppfylla bæði viðmið Eurydice hvað varðar vægi erlendra tungumála í námskrám grunn- og framhaldsskóla, þ.e. að nemendur læri erlend tungumál í tíu ár eða lengur og þar af tvö erlend tungumál a.m.k. um fimm ára skeið. Af hinum Norðurlöndunum er Finnland einnig í þessum hópi en rétt er að taka fram að íslenska starfsnámskerfið fellur ekki alfarið að skilgreiningum skýrslunnar á þessu sviði og stendur það því utan við þennan mælikvarða.

Þá er Ísland eitt fjórtán evrópskra menntakerfa þar sem engar takmarkanir eru á nýtingu námsmanna á opinberum fjárhagsstuðningskerfum síns heimaríkis við nám á erlendri grundu. Ólíkt flestum öðrum ríkjanna í þessum flokki, m.a. flestum hinna Norðurlandanna, er stuðningurinn hérlendis hins vegar eingöngu í formi námslána sem njóta opinberrar niðurgreiðslu á vöxtum, ekki í formi styrkjakerfis. Rétt er að geta þess að umfjöllunin miðast við stöðu mála skólaárið 2018-2019.

Hins vegar kemur m.a. fram að þrátt fyrir mikla virkni í nemendaskiptum hérlendis telst Ísland í hópi tíu ríkja þar sem upplýsingagjöf um ráðgjöf á því sviði býr einna síst að heildstæðri stefnumótun og skipulagi.

Almennt séð telja skýrsluhöfundar að hreyfanleiki námsmanna fari vaxandi og að hindrunum í þeim efnum fari fækkandi í álfunni. Ekkert ríki eða menntakerfi telst þó uppfylla öll viðmið Eurydice í þessum efnum og m.a. er bent á mikilvægi þess að bæta gagnkvæmar viðurkenningar á prófskírteinum og starfsréttindum milli ríkja.

Skýrslu Eurydice má nálgast hér á vef samstarfsnetsins, en einnig má nálgast upplýsingar um mælikvarðana á aðgengilegan hátt hér, m.a. með gagnvirkum kortum sem sýna stöðu einstakra ríkja út frá mismunandi mælikvörðum.

skrifað 31. JAN. 2020.