1. Forsíða
  2. Ný TALIS skýrsla – Starfshættir og viðhorf kennara og skólastjóra á unglingastigi grunnskóla

Ný TALIS skýrsla – Starfshættir og viðhorf kennara og skólastjóra á unglingastigi grunnskóla

Alls taka 48 ríki þátt í TALIS rannsókn Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Í rannsókninni eru kennarar og skólastjórar á unglingastigi grunnskóla spurðir um kennsluhætti, skólastarfið, starfskjör, eftirspurn eftir þjálfun og margt fleira. Á Íslandi voru allir skólastjórar og kennarar á unglingastigi í úrtaki rannsóknarinnar og var svörunin um 75%. Menntamálastofnun hefur tekið saman sérstaka skýrslu úr gögnum TALIS-rannsóknarinnar, þar sem fjallað er um helstu niðurstöður fyrir íslenskt skólakerfi og þær bornar saman við niðurstöður annarra þátttökuríkja, ekki síst hinna Norðurlandanna.

Meðal þess sem einkennir unglingastig grunnskóla hérlendis í rannsókn Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á 48 löndum er:

  • Vaxandi eftirspurn er eftir þjálfun í kennslu nemenda með fjölmenningarlegan bakgrunn.
  • Íslenskir kennarar og skólastjórar taka meiri þátt í starfsþróunarverkefnum en í samanburðarlöndum.
  • Agamál eru stærra viðfangsefni í íslensku skólakerfi en gerist í samanburðarlöndum.
  • Íslenskir kennarar eru óánægðari með sín laun en gerist í samanburðarlöndum, en í heildina eru 93% þeirra sáttir við starf sitt.

Auk ofangreindra niðurstaðna kemur m.a. fram að íslenskir kennarar telja sig betur undirbúna undir kennslu í þverfaglegri hæfni, þeir kenna að jafnaði um einni klukkustund meira í hverri viku, að stærð bekkja / kennsluhópa er ívið minni en á hinum Norðurlöndunum og að íslenskir kennarar telja mjög mikilvægt að auka stuðning við nemendur af erlendum uppruna.

Íslenska skýrslu Menntamálastofnunar má nálgast hér, en almenna skýrslu um TALIS rannsóknina (á ensku) má nálgast hér.

 

skrifað 19. JúN. 2019.