1. Forsíða
  2. Ný TALIS skýrsla – starfshættir og viðhorf starfsfólks leikskóla

Ný TALIS skýrsla – starfshættir og viðhorf starfsfólks leikskóla

Mikil ánægja í starfi en minnst menntun á þessu sviði

Um 99% leikskólastjóra og 96% annars starfsfólks leikskólanna er ánægt með sitt starf í heildina. Þá telja 54% íslenskra leikskólastjóra að starfsfólk leikskóla sé mikils metið í þjóðfélaginu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri TALIS skýrslu þar sem starfshættir og viðhorf starfsfólks leikskóla er skoðað. Auk Íslands taka átta ríki þátt í TALIS rannsókn Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um starfshætti og viðhorf starfsfólks leikskóla, m.a. Danmörk og Noregur.

Þrátt fyrir ánægju starfsfólks er starfsmannavelta leikskólanna umtalsverð og fjarvistir starfsfólks heftandi þáttur í skólastarfi að mati leikskólastjóra. Enn fremur hefur um þriðjungur starfsfólks íslenskra leikskóla ekki lokið menntun sem bjó það undir að vinna með börnum. Meðaltalið í þátttökulöndum er aðeins um fimmtungur.

Auk ofangreindra niðurstaðna kemur m.a. fram að skriffinnska í starfi er minnst hérlendis og um þriðjungur hefur tekið þátt í starfsþróun um vinnu með tvítyngdum börnum, börnum með sérþarfir eða agastjórnun. Um helmingur hefur farið í vettvangsferðir í aðra skóla.

Skýrsla um helstu niðurstöður fyrir íslenska leikskóla

Í rannsókninni eru lagðar spurningar  fyrir leikskólastjóra og annað starfsfólk leikskóla um menntun, starfsánægju, starfskjör, starfsþróun og margt fleira. Menntamálastofnun hefur tekið saman skýrslu úr gögnum TALIS-rannsóknarinnar, þar sem fjallað er um helstu niðurstöður fyrir íslenska leikskóla og þær bornar saman við niðurstöður annarra þátttökuríkja.

Á Íslandi voru allir leikskólar landsins sem annast börn á aldrinum 3-5 ára í úrtaki rannsóknarinnar. Hérlendis tóku 208 leikskólastjórar þátt og 1.378 aðrir starfsmenn.

Íslenska skýrslu Menntamálastofnunar má nálgast hér en almenna skýrslu um TALIS-rannsóknina (á ensku) má nálgast hér.

Opinn fundur 29. október
TALIS-skýrslan og nýleg Eurydice-skýrsla um málefni leikskólans verða kynntar á opnum fundi í húsakynnum mennta- og menningarmálaráðuneytisins að Sölvhólsgötu 4, þriðjudaginn 29. október kl. 15:00-17:00. Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir að skrá þátttöku hér.

skrifað 25. OKT. 2019.