1. Forsíða
  2. Nýjar endurskoðaðar verklagsreglur fagráðs eineltismála í grunnskólum

Nýjar endurskoðaðar verklagsreglur fagráðs eineltismála í grunnskólum

gegneinelti.is
gegneinelti.is

Vakin er athygli á að mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson undirritaði þann 17. maí sl. nýjar endurskoðaðar verklagsreglur um starfsemi fagráðs eineltismála í grunnskólum, sem birtar voru í Stjórnartíðindum 31. maí sl.

Fagráðið starfar á grundvelli 4. mgr. 30. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla og hefur hlutverk þess verið nánar útfært í reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Úr gildi falla eldri verklagsreglur um starfsemi þess frá 6. mars 2012. Fagráðið er skipað þremur einstaklingum sem hafa verið í því frá byrjun eða frá árinu 2012, en þau eru: Arnheiður Gígja Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, Þórkatla Aðalsteinsdóttir, sálfræðingur og formaður ráðsins Páll Ólafsson, félagsráðgjafi.

Foreldrar og aðrir aðilar skólasamfélagsins, svo sem nemendur, starfsfólk og stjórnendur grunnskóla, auk annarra sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi, geta óskað eftir aðkomu fagráðsins ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn innan skóla eða sveitarfélags, þrátt fyrir aðkomu starfsfólks skóla og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga. Sömu aðilar geta jafnframt vísað máli til fagráðs vegna meints aðgerðaleysis skóla eða sveitarfélags.

Breytingar þær sem voru gerðar á verklagsreglunum eru til komnar að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Skólastjórafélags Íslands og byggja m.a. á reynslu fagráðsins á undanförnum misserum. Haft var að leiðarljósi við gerð breytinganna að verklagsreglurnar þjóni sem best tilgangi sínum skólasamfélaginu til góðs. Sem dæmi um breytingu má nefna að nú geta fleiri aðilar óskað eftir aðkomu fagráðs, áður voru það foreldrar og skólar en nú hafa bæst við: nemendur, starfsfólk skóla, auk annarra aðila sem starfa með börnum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi. Einnig er kveðið á um skipun varamanna ráðsins og hlutverk og ábyrgð verkefnastjóra skilgreint. Verklagsreglurnar bæta þær gömlu verulega upp m.a. með tilliti til bættra stjórnsýsluhátta í meðferð mála sem berast fagráðinu.

Fagráðið starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis, en Menntamálastofnun annast umsýslu þess. Starfsmaður þess er Erla Ósk Guðjónsdóttir, [email protected]

Vakin er athygli á vefsíðu fagráðs eineltismála í grunnskólum: gegneinelti.is

Sjá nýjar endurskoðaðar verklagsreglur á vef Stjórnartíðinda hér.

Endurskoðaðar verklagsreglur fagráðs eineltismála í grunnskólum - frétt mennta- og menningarmálaráðuneytis.

 

 

skrifað 06. JúN. 2016.