1. Forsíða
  2. Nýtt pantanafyrirkomulag

Nýtt pantanafyrirkomulag

Menntamálastofnun hefur ákveðið að afnema kvóta við úthlutun námsgagna. Mun þetta hafa í för með sér rýmri heimildir skóla til að panta það efni sem þörf er á hverju sinni og bætt aðgengi nemenda og kennara að nýjasta námsefni sem völ er á.

Frá og með næsta skólaári, 2017-2018, verður tekið upp nýtt pantana- og dreifingarfyrirkomulag á námsbókum. Sú breyting verður að í stað ákveðins kvóta er gert ráð fyrir að skólar panti námsefni fyrir heilt skólaár að vori. Að auki geta skólar pantað aukalega allt að fjórum sinnum á ári og mun Menntamálastofnun senda út sýniseintök allt að þrisvar sinnum á ári

Lager Menntamálastofnunar verður fluttur og mun fyrirtækið A4 sjá um birgðahald og dreifingu námsgagna. Stefnt er að því að fækka sendingum á ársgrundvelli og ná með því fram hagræðingu sem ætlað er að skili sér í auknu fjámagni til námsefnisgerðar og í bættri þjónustu við grunnskóla.

Menntamálastofnun mun kappkosta að þeir aðilar sem sjá um pantanir á námsgögnum finni sem minnst fyrir breytingunum. Áfram verður pantað í gegnum heimasíðu Menntamálastofnunar en pantanir afgreiddar af A4.

Starfsmaður Menntamálastofnunar hefur að undaförnu farið um landið og kynnt þessar breytingar og ráðgert er að á næstunni verði haldinn fjarfundur fyrir þá sem ekki höfðu tök á að koma á fyrri kynningar.

Nánari upplýsingar veitir Erling R. Erlingsson, sviðsstjóri miðlunarsviðs Menntamálastofnunar.

skrifað 09. JúN. 2017.