Það voru spennt og áhugasöm börn á leikskólanum Laugasól sem tóku við fyrstu eintökum af bókinni Orð eru ævintýri úr hendi Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Þórdísar Jónu Sigurðardóttur, forstjóra Menntamálastofnunar.
Orð eru ævintýri er gjöf til allra þriggja og fjögurra ára barna á Íslandi. Um er að ræða myndaorðabók sem býður upp á tækifæri til að spjalla um orð daglegs lífs og efla orðaforða. Hún hefur verið þýdd á nokkur tungumál og verður aðgengileg á rafrænu formi á vef ásamt gagnvirkum verkefnum og kennsluleiðbeiningum fyrir leik- og grunnskóla. Aftast í bókinni eru stuttar leiðbeiningar um notkun og hugmyndir að umræðuefnum. Myndhöfundar eru Blær Guðmundsdóttir, Böðvar Leós, Elín Elísabet Einarsdóttir og Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson.
Bókin er gefin út af Menntamálastofnun og var unnin í samvinnu Miðju máls og læsis hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, námsbrautar í talmeinafærði við Háskóla Íslands, leikskólanna Laugasólar og Blásala, Austurbæjarskóla og Menntamálastofnunar.
Ljósmyndir: Dröfn Rafnsdóttir