1. Forsíða
  2. PISA: Áhersla á símenntun kennara skilar bættum árangri í Svíþjóð

PISA: Áhersla á símenntun kennara skilar bættum árangri í Svíþjóð

Svíar horfðu fram á verulega afturför í lesskilningi í PISA-könnunum fram að árinu 2012 en gripu þá til markvissra aðgerða. Í kjölfarið hefur frammistaða sænskra nemenda tekið miklum framförum, líkt og sjá má á grafinu hér fyrir neðan yfir þróunina á Norðurlöndunum.

Meðalstig nemenda á Norðurlöndunum í lesskilningi í PISA, 2000-2018:

Um aðgerðir Svía er fjallað í grein Sigríðar Ólafsdóttur lektors og Baldurs Sigurðssonar dósents við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þar kemur m.a. fram að Svíar hafi lagt áherslu á skýra námskrá og öfluga innleiðingu hennar en að það sem mestu hafi líklega skipt var að Svíar réðust í markvissa símenntun kennara til að bæta árangur í læsi. Verkefnið náði til allra námsstiga skólakerfisins, frá leikskóla til framhaldsskóla. Lagt var til grundvallar að bætt læsi barna væri ekki einkamál sænskukennarans heldur sameiginlegt verkefni allra kennara og því lögð áhersla á að ná til kennara í öllum námsgreinum. Meðal annars er þessu verkefni stýrt af sérstökum leiðtoga í hverjum skóla sem sækir námskeið og miðlar þekkingu innan síns skóla. Nánar er fjallað um átakið í grein Sigríðar og Baldurs sem nálgast má í í skýrslu Menntamálastofnunar um niðurstöður PISA 2018 (bls. 38-61).

Einnig framfarir í stærðfræði eftir sambærilegt átak

Í skýrslunni (bls. 73-84) fjallar Freyja Hreinsdóttir, dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands, einnig m.a. um sambærilegt átak sem Svíar réðust í árið 2012 til að bregðast við afturför hjá sænskum nemendum á sviði stærðfræði. Frammistaða sænskra nemenda í læsi á stærðfræði í PISA hefur einnig tekið miklum framförum frá árinu 2012.

 

skrifað 04. DES. 2019.