1. Forsíða
  2. PISA: Framfarir í stærðfræði hjá íslenskum nemendum

PISA: Framfarir í stærðfræði hjá íslenskum nemendum

Niðurstöður úr nýrri PISA-könnun sýna að árangur íslenskra nemenda í stærðfræði er nokkuð góður. Fram kemur að læsi nemenda á stærðfræði er yfir meðaltali í ríkjum OECD og eins að Ísland hefur verið eitt af þeim sex ríkjum OECD sem hafa sýnt framfarir.

Frammistaða nemenda í læsi á stærðfræði var marktækt betri í PISA 2018 en í síðustu könnun PISA árið 2015 og nemendur sem búa yfir grunnhæfni eru hlutfallslega fleiri.

Hvatning og uppbyggileg endurgjöf
Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri á matssviði hjá Menntamálastofnun, fagnar niðurstöðum PISA í stærðfræði og telur mikilvægt að þær séu notaðar til að ígrunda stöðu íslensks menntakerfis. „PISA er ákveðin könnun á ákveðnum þáttum í þekkingu og færni nemenda og við skulum nota hana sem uppbyggilega endurgjöf í umræðu um skólastarfið og framtíð þess. Það er gleðilegt að stærðfræðin er á uppleið og það má hrósa nemendum, kennurum og fleirum fyrir þessa flottu útkomu.“

Kristinn Sverrisson kennir 8., 9. og 10. bekk stærðfræði í Kópavogsskóla og þekkir því vel til skólastarfsins. „Ég hef ekki verið mikill áhugamaður um PISA og finnst stundum að þessi rannsókn sé að meta of afmarkaða hæfni hjá nemendum. Þetta er góð könnun á afmörkuðum þáttum en metur kannski ekki nægilega vel gagnrýna hugsun, frumkvæði og félagsfærni. Ég er hins vegar mjög glaður hvernig stærðfræði kemur út. Við erum að ná að snúa ákveðinni þróun við og það er frábært að sjá hvernig við erum að bæta okkur á Íslandi samanborið við önnur lönd. Þetta er mikil hvatning til okkar stærðfræðikennara og við höldum vonandi áfram á þessari braut.“

skrifað 03. DES. 2019.