Í tilefni af því að verkefnið Sögur-samstarf um barnamenningu varð fimm ára og Risastórar smásögur komu út í fimmta sinn árið 2022 var ákveðið að gefa út prentaða viðhafnarútgáfu sem inniheldur tíu sögur sem þóttu skara fram úr í hverri útgáfu árin á undan. Nýútskrifaðir nemar úr Myndlistarskóla Reykjavíkur voru fengnir til að myndlýsa sögurnar og glæða myndirnar sögurnar enn meira lífi.
Allir grunnskólar og öll almenningsbókasöfn landsins munu fá nokkur eintök að gjöf en bókina má einnig nálgast rafrænt á vef Menntamálastofnunar.
Bókin inniheldur tíu verðlaunasögur sem myndlýstar eru af nýútskrifuðum nemum frá Myndlistarskóla Reykjavíkur og glæða myndirnar fjölbreyttar og spennandi sögurnar enn meira lífi.
Frá árinu 2017 hafa Sögur – samstarf um barnamenningu staðið að verkefninu Sögur en KrakkaRÚV, Menntamálstofnun, Borgarbókasafnið, List fyrir alla, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Borgarleikhúsið eru aðilar að samstarfinu.
Einn liður í verkefninu er að hvetja börn til lestrar og skapandi skrifa en það hefur verið gert með því að efla til smásagnasamkeppni fyrir nemendur á aldrinum 6–12 ára. Á hverju ári hafa verið valdar um 20 smásögur sem þótt hafa skarað fram úr og tveir höfundar, úr yngri og eldri hópi, hlotið Svaninn fyrir sérstaklega áhugaverðar sögur. Menntamálastofnun hefur annast útgáfu á smásögunum sem gefnar hafa verið út undir heitinu Risastórar smásögur.
Við vonum að verkefnið og bókin hvetji börn til að þeysa fram á ritvöllinn, að skapa og skrifa þegar þau sjá hvað jafnaldrar eru færir um að gera. Hver saga geymir nefnilega heilan heim þar sem allt getur gerst, þar sem ferðast má í tíma og rúmi og upplifa sigra og sorgir annarra. Þannig stækkum við sjálf.
Góðar lestrarstundir!