1. Forsíða
  2. Rithöfundar fá frábærar viðtökur

Rithöfundar fá frábærar viðtökur

Á síðasta ári efndi Menntamálastofnun til samstarfs við rithöfunda barna- og unglingabóka í þeim tilgangi að kveikja áhuga barna á bóklestri og sögugerð.  Samstarfið gengur út á heimsóknir rithöfunda í grunnskóla, þar sem þeir lesa úr bókum og halda skemmtilegt námskeið í skapandi skrifum. Þorgrímur Þráinsson rithöfundur er nýkominn  úr slíkri heimsókn til Vestfjarða þar sem hann hitti nemendur úr tíu skólum. 

„Viðtökurnar sem ég fæ eru alltaf einstakar og það er ánægjulegt að finna hversu mikinn áhuga nemendur hafa á því að hlusta á, bæði upplestur og þegar ég segi frá spennandi söguþræði. Nánast undantekningalaust spyrja krakkarnir hvort bækurnar séu til á bókasafninu,“ segir Þorgrímur.

Hann segir að á námskeiðinu útskýri hann vinnu sína sem rithöfundur, hvernig hann skapi persónur, spinni söguþráð, skapi spennu og hvernig sögurnar sjálfar geti tekið völdin. „Ég segi frá og sýni með teikningum hvernig ég vek upp spurningar snemma í bókum til að halda spennu þannig að lesendur geta helst ekki lagt bækurnar frá sér.“ Eftir það skrifa nemendur í liðlega 40 mínútur og undir lokin lesa nokkrir þeirra upp sögurnar sínar.

Eftir námskeiðið sendir Þorgrímur kennurum efni með útskýringum um sitt vinnulag og nemendur fá einblöðung með hagnýtum ráðum við skrif.

Heimsóknir af þessu tagi hafa vakið mikla lukku og svo virðist sem margir framtíðarhöfundar séu í hópi nemenda. Þær hafa kveikt áhuga barna og unglinga á bóklestri og hvatt þá til að spreyta sig við sögugerð. Meðal þeirra sem hafa sinnt fræðslunni eru rithöfundarnir Gunnar Helgason, sem heimsótti skóla á Austurlandi í mars sl., og Bergrún Íris Sævarsdóttir sem þessa dagana er á ferð um Vesturland með námskeið fyrir nemendur í skapandi skrifum. Þorgrímur mun svo heimsækja skólana á Norðurlandi vestra í febrúar 2019.

 

          

          

skrifað 18. OKT. 2018.