1. Forsíða
  2. Ritstjórar námsefnis í skólaheimsóknum

Ritstjórar námsefnis í skólaheimsóknum

Á nýju ári hafa ritstjórar Menntamálastofnunar heimsótt grunnskóla vítt og breitt um landið.

Tilgangur heimsóknanna er að auka samstarf kennara og ritstjóra sem vinna að gerð námsefnis hjá stofnuninni. Þannig viljum við koma á beinum tengslum við kennara sem nota námsefni sem Menntamálastofnun gefur út. Einnig gefst kennurum kostur á að koma á framfæri sínum sjónarmiðum varðandi námsefni og áherslur í námsefnisgerð.

Góðar og gagnlegar umræður hafa átt sér stað í skólaheimsóknunum. Kennarar hafa miðlað til okkar hugmyndum að nýju námsefni og upplýst okkur um það efni sem hefur reynst vel eða bent á það sem betur mætti fara. Einnig hefur verið lærdómsríkt að heyra sjónarmið nemenda og sjá hvernig námsefnið okkar er nýtt í kennslu.

Heimsóknir munu halda áfram fram á vor og vonumst við til að geta tekið þráðinn upp að nýju á haustdögum og heimsótt enn fleiri skóla.

Auður Bára, Elín Lilja, Gurrý, Harpa, Sigrún Sóley, Sissý og Skúli

skrifað 20. MAR. 2018.