1. Forsíða
  2. Ritun færð í Lesferil

Ritun færð í Lesferil

Að höfðu samráði við fagráð matssviðs og samráðshóp um innleiðingu rafrænna prófa hefur Menntamálastofnun tekið þá ákvörðun að ritun verður færð úr samræmdum könnunarprófum yfir í Lesferil strax í mars og október á þessu ári. Byrjað verður á að setja ritunarverkefni sem notuð hafa verið í samræmdum könnunarprófum inn í Lesferil ásamt viðmiðum fyrir frammistöðu á landinu öllu. Viðmiðin verða unnin úr niðurstöðum samræmdra könnunarprófa fyrri ára.

Ákveðnir forsendur eru undirliggjandi þessari ákvörðun. Þegar ritunarþátturinn er hluti af stöðluðu prófi, eins og í samræmdum könnunarprófum, dregur úr skapandi þætti hennar og möguleikanum á endurskoðun texta vegna tímapressu. Ritun sem sérstakt og afmarkað verkefni er ekki háð þessu að sama marki.  Með því að setja ritun inn í Lesferil eru meiri líkur á að nemandi geti komið sköpun sinni til skila auk þess sem hægt væri að láta nemendur vinna áfram að sama verkefni síðar.

Prófakerfi Menntamálastofnunar mun styðja með markvissari hætti við kennslu í ritun með því að bjóða upp á mat í ritun fyrir fleiri árganga en verið hefur. Nemendur og kennarar fá einnig betri tækifæri til að vinna með matsreglur ritunar þannig að nemandinn fái aukna þjálfun í ritunarferli og hægt er að fylgjast með framvindu í ritun með reglulegu mati sem aðgengilegt verður í Skólagátt. Kennarar fá þannig í hendur verkfæri sem nýtist sem matshluti í ritun og gefur kost á viðmiði tengt árgangi fremur en einum skóla. Kennarar sjá einnig stöðu sinna nemenda miðað við aðra nemendur á landinu. Ekki er ætlunin að auka vinnu kennara heldur að útvega þeim verkfæri sem þeir geta notað til að meta ritun nemenda sinna á markvissan hátt.

skrifað 28. FEB. 2017.