Menntamálastofnun og A4 hafa gert með sér samning um lagerhald og dreifingu á námsgögnum í kjölfar útboðs á vegum Ríkiskaupa.
Í framhaldi af greiningarvinnu sem unnin var hjá Menntamálastofnun árið 2016 var ákveðið að bjóða út hýsingu og dreifingu námsgagnalagers stofnunarinnar. Ríkiskaup sá um að bjóða út verkefnið, þrjú tilboð bárust og átti A4 hagstæðasta tilboðið. Um er að ræða dreifingu til allra skóla í landinu og lagerhald útgefinna námsbóka auka nýrra bóka sem gefnar verða út á samningstímanum sem er til þriggja ára.
Breyting þessi mun hafa í för með sér talsverða hagræðingu og sparnað sem mun nýtast til frekari útgáfu námsgagna fyrir grunnskóla.
Menntamálastofnun hefur staðið fyrir kynningarfundum um landið síðustu vikurnar þar sem farið hefur verið yfir breytingarnar og samráð haft við skóla um nánari útfærslu fyrirkomulags dreifingar.
Þetta mun ekki hafa áhrif á það hvernig skólar panta námsefni en það verður áfram gert í gegnum heimasíðu Menntamálastofnunar. Skólar munu því ekki finna fyrir breytingunni og stofnunin leggur áherslu á að bjóða áfram upp á góða þjónustu við skólana.
Hlé verður gert á afgreiðslu námsbóka meðan á flutningi stendur en A4 mun afgreiða námsefni til skólanna áður en skólastarf hefst að loknu sumarfríi.
Bylgja Bára Bragadóttir, sölustjóri A4 og Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar.