1. Forsíða
  2. Samráðsfundum um Matsferil lokið

Samráðsfundum um Matsferil lokið

Samráðsfundum Menntamálastofnunar og mennta- og barnamálaráðuneytisins um Matsferil er nú lokið. Matsferill er nýtt námsmatskerfi sem ætlað er að koma í stað samræmdra könnunarprófa sem nú hafa verið lögð af. Umræður og endurgjöf fundargesta eru nauðsynlegt og gagnlegt innlegg í áframhaldandi þróun námsmatsins.

Haldnir voru fimm staðfundir með fulltrúum kennara, skólastjórnenda, starfsfólks fræðsluþjónustu og forsjáraðila á Akureyri, Árborg, Egilsstöðum, höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesinu og fjarfundur með fulltrúum af Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Að lokum var haldinn einn opinn fjarfundur fyrir áhugasama. Samhliða þessu voru haldnir tíu rýnifundir með nemendum víðs vegar um landið og rafræn könnun um námsmat send á nemendur, kennara/skólastjórnendur og forsjáraðila. 

Þátttaka á samráðsfundunum var með eindæmum góð þrátt fyrir að margir þyrftu að koma um langan veg. Umræður voru oft og tíðum fjörlegar og augljóst að skoðanir fundargesta á framtíðarfyrirkomulagi námsmats eru miklar og innlegg þeirra bæði nauðsynlegt og gagnlegt.

Í samráðinu hefur safnast mikið af gögnum sem starfsfólk Menntamálastofnunar vinnur nú úr en á síðari stigum gagnasöfnunar er gert ráð fyrir aðkomu sérfræðingahóps m.a. úr háskólasamfélaginu. Hlutverk hans verður að leggja til fræðileg sjónarmið varðandi áframhaldandi þróun Matsferils til viðbótar við þær upplýsingar sem fengist hafa með samráðs- og rýnifundunum og könnunum. Gert er ráð fyrir að skýrsla liggi fyrir á vordögum en niðurstöður hennar verða notaðar sem efni í tillögur um framtíðarskipan námsmats á vegum hins opinbera.

skrifað 01. APR. 2022.