1. Forsíða
  2. Samráðsfundur með fulltrúum ungmennaráða

Samráðsfundur með fulltrúum ungmennaráða

Nýlega hélt Menntamálastofnun samráðsfund með fulltrúum ungmennaráða.  Tilgangur fundarins var að fá skoðanir ungmenna á ýmsum málefnum og verkefnum stofnunarinnar. Fulltrúar á fundinum voru frá eftirtöldum ungmennaráðum: Barnaheillum, SAFT, Samfés, Unicef, umboðsmanni barna, UMFÍ og fulltrúum úr ungmennaráðum sveitarfélaga; Árborg, Akureyri, Fjarðabyggð og Stykkishólmi. 

Ungmennin ræddu um ýmis málefni sem eru ofarlega á baugi í menntamálum. Má þar nefna breyttan einkunnakvarða við lok grunnskóla, rafræn samræmd könnunarpróf, þjóðarsáttmála um læsi og rafræna námsefnisgerð. Einnig var rætt um styttingu framhaldsskólans og kennslu í lífsleikni og sundi í grunnskóla. Unnið var með umræðuefnin í vinnustofum og í lokin kynntu unglingarnir niðurstöður. Fóru fjörugar umræður fram í kjölfarið, en meginniðurstöður fundarins voru:

  • Óskað var eftir því að samráð verði haft í framtíðinni við ungmenni þegar verið er að taka ákvarðanir sem varða þau.
  • Ungmennin voru ósátt og gerðu athugasemdir við að hafa ekki verið spurð áður en ákvarðanir voru teknar um breyttan einkunnakvarða. 
  • Kallað var eftir kynningum sem ná beint til nemenda á mikilvægum málefnum.

Í lok fundar afhentu fulltrúar Samfés Arnóri Guðmundssyni forstjóra Menntamálastofnunar ályktun af landsþingi ungs fólks sem haldið var á Akureyri 9. október sl., þar sem m.a. var ályktað um að ekki var haft samráð um styttingu framhaldsskólans og breyttan einkunnakvarða.

Menntamálastofnun hyggst í framtíðinni leita til ungmenna vegna ákvarðanatöku í málefnum sem varða þau og var fundurinn fyrsta skrefið í slíku samráði. Á næstu vikum verður unnið að því að flétta samráði við ungmenni inn í verklag stofnunarinnar og unnið með niðurstöður þessa fyrsta samráðsfundar. Skýrsla með niðurstöðum fundarins verður birt á heimasíðu mms.is og þær kynntar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Fulltrúar ungmennaráða ásamt Arnór Guðmundssyni forstjóra Menntamálastofnunar.
Fulltrúar ungmennaráða ásamt Arnór Guðmundssyni forstjóra Menntamálastofnunar.
Arnór Guðmundsson forstjóri tekur við ályktun af landsþingi ungs fólks frá fulltrúum Samfés.
Arnór Guðmundsson forstjóri tekur við ályktun af landsþingi ungs fólks frá fulltrúum Samfés.
skrifað 03. MAí. 2016.