Samræmd könnunarpróf hófust í morgun, fimmtudaginn 21. september, með fyrirlögn í íslensku fyrir 7. bekk.
Fyrirlögnin gekk mjög vel og greinilega allir vel tilbúnir fyrir daginn. Á heildina litið voru töluvert færri vandamál en í fyrri fyrirlögnum. Vel gekk að leysa alla þá hnökra sem komu upp. Starfsmenn grunnskólanna stóðu sig vel og allir samstíga í verkefnum dagsins.
Það skapaði ákveðna ró að nemendur skráðu sig inn þegar þeir voru tilbúnir (tími telur niður frá innskráningu) og eins hafa skólar svigrúm fram eftir morgni að klára prófin.
Nemendum gekk almennt vel að skrá sig inn og taka prófin. Í einstaka tilvikum komu upp hnökrar þegar spjaldtölvur voru með eldri útgáfu af veflás-forritinu. Hægt er að koma í veg fyrir slík vandamál með uppfærslu á veflás. Ennfremur komu fram einstaka tilvik þar sem ný uppfærsla á Ipad spjaldtölvum, sem kom fyrir tveimur dögum, virkaði ekki sem skyldi (ný uppfærsla á stýrikerfi sem kallast IOS 11.0). Skólar eru hvattir til að uppfæra ekki stýrikerfi á tölvur svo nálægt prófdegi.
Minna var um tengivandamál heldur en í fyrri fyrirlögnum. Mörg sveitarfélög og skólar hafa greinilega staðið sig vel við að uppfæra tækjabúnað og aðra innviði, sem gera skólana betur í stakk búna til að takast á við svona verkefni.
Við ætlum að reyna okkar besta til að leysa þá hnökra sem koma upp í prófunum. Við erum við símann og byrjum snemma þessa dagana. Síminn okkar er: 514-7500.