1. Forsíða
  2. Samræmd könnunarpróf hefjast í vikunni

Samræmd könnunarpróf hefjast í vikunni

Samræmd könnunarpróf í 4. og 7. bekk verða lögð fyrir dagana 20.- 28. september. Að þessu sinni eru það um 4.700 nemendur í 4. bekk og 4.400 nemendur í 7. bekk sem munu þreyta próf í íslensku og stærðfræði. 

Þegar prófin voru lögð fyrir í september 2017 gekk fyrirlögnin vel. Í könnun sem var lögð fyrir skólastjórnendur sögðust 90% þeirra vera ánægðir með hvernig til tókst. 

Þetta eru fyrstu almennu samræmdu könnunarprófin sem lögð eru fyrir, frá því að tæknileg vandamál urðu við fyrirlögn í tveimur prófum nemenda í 9. bekk í mars sl. Í kjölfar þess voru ítarlegar og óháðar úttektir gerðar, til að greina ástæður þeirra vandamála sem komu upp.

Menntamálastofnun hefur ásamt utanaðkomandi sérfræðingum rýnt í niðurstöður úttektanna, breytt verklagi í aðdraganda þeirra og lagt ríka áherslu á að tryggja hnökralausa framkvæmd héðan í frá. Þá hefur viðbragðsáætlun verið uppfærð, varaprófdagar settir inn í áætlun, kynningarpróf búin til og fleira til að auðvelda framkvæmdina.

Unnið var samkvæmt nýja verklaginu í endurfyrirlögn 9. bekkjar prófanna í september og heppnaðist það vel.

skrifað 19. SEP. 2018.