1. Forsíða
  2. Samræmd könnunarpróf í 7. bekk hafin

Samræmd könnunarpróf í 7. bekk hafin

Samræmd könnunarpróf í 7. bekk hófust í morgun en í dag þreyta í kringum 4.300 nemendur í 155 skólum próf í íslensku. Könnunarpróf í stærðfræði fer fram á morgun. Könnunarprófin verða lögð fyrir 4. bekk í næstu viku.

Framkvæmd prófanna hefur gengið vel og greinilegt að góður undirbúningur skóla er að skila sér. Menntamálastofnun hefur undirbúið framkvæmdina vel og gerði útfærða viðbragðsáætlun í samvinnu við skóla. Þar eru sett fram viðbrögð vegna Covid-19 og ákveðnir varaprófdagar ásamt öðrum úrræðum. 

Hluti nemenda í 7. bekk hafði ekki kost á því að þreyta prófin í dag vegna Covid-19. Um er að ræða 220 nemendur í 7. bekk í fimm skólum sem ekki náðu að taka prófin og er þeim boðið að taka þau á varaprófdögum, dagana 12. og 13. október. Ef skólinn getur ekki haldið próf á varaprófdögum munu skólastjóri viðkomandi skóla og Menntamálastofnun eiga samtal um framhaldið og finna nýja prófdaga fyrir könnunarprófin.

Þessi nýja útfærsla með varaprófdaga og þétt samvinna við skólastjórnendur mun auka sveigjanleika próftöku við þær krefjandi aðstæður sem eru til staðar.

Það er skiljanlegt að foreldrar og nemendur hafi áhyggjur af stöðunni en Menntamálastofnun hefur lagt mikið upp úr því að eiga gott samtal við alla aðila skólasamfélagsins og unnið að lausnum í samráði við þá. Þá hefur stofnunin verið í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið til að undirbúa fyrirlögnina sem best.

Við erum öll samstíga að hugsa um hag nemenda og að þeim farnist sem best við þessar aðstæður.

Menntamálastofnun þakkar nemendum, foreldrum og starfsfólki skóla fyrir gott samstarf við undirbúning og framkvæmd prófanna. Við óskum nemendum góðs gengis næstu daga, sem og alla aðra skóladaga.

skrifað 24. SEP. 2020.