1. Forsíða
  2. Samræmd könnunarpróf næstu daga

Samræmd könnunarpróf næstu daga

Samræmd könnunarpróf verða lögð fyrir 4. og 7. bekk dagana 21. - 29. september. Það verða kringum 4.400 nemendur í 7. bekk og 4.800 nemendur í 4. bekk sem þreyta prófin.

Tilgangur prófanna er að meta hvernig markmiðum aðalnámskrár hefur verið náð og veita endurgjöf. Með prófunum er hægt að fá upplýsingar um þekkingu og hæfni hvers nemanda, sjá hvort breyta þurfi áherslum í námi og hvað þurfi að bæta. Samræmd könnunarpróf eru lítill hluti af því heildarnámsmati sem fram fer og mikilvægt að nálgast prófin með því hugarfari. Skólar standa fyrir öðru námsmati þar sem fjölbreyttum aðferðum er beitt.

Samræmdu prófin eru rafræn og  nemendur taka þau á tölvu. Nú eru allir skólar búnir að fá senda svokallaða prófkóða – sem nemendur nota til að skrá sig inn í prófin. Nemendur fá þessa kóða þegar þeir mæta í próf.

Menntamálastofnun hefur verið í góðu samstarfi við skólana til að tryggja að próftakan takist vel. Það hafa verið haldnir fjarfundir, samráðsfundir og tæknifundir. Síðan höfum við verið að veita ráðgjöf beint til starfsmanna skóla og verið dugleg að segja frá undirbúningnum á samfélagsmiðlum. Menntamálastofnun auglýsti prófin í blöðum og hefur skrifað leiðbeiningar á öðrum tungumálum.

Hér á vef Menntamálastofnunar, undir samræmd próf, er að finna ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar um prófin og framkvæmd þeirra.

Óskum nemendum velfarnaðar í prófunum. Muna að prófin eru hugsuð til hjálpar við að sjá styrkleika í námi og hvar er hægt að bæta sig. 

skrifað 19. SEP. 2017.