1. Forsíða
  2. Skóladagatalið í skólum 37 Evrópulanda

Skóladagatalið í skólum 37 Evrópulanda

Út er komin samanburðarskýrsla á vegum Eurydice-samtarfsins með samanburði á skóladagatali grunn-  og framhaldsskóla í 37 þátttökulöndum. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um lengd skólaárs í hverju landi, upphafsdag og lokadag skóladagatalsins, fjölda skóladaga og frídaga í grunn- og framhaldsskólum: The Organisation of School Time in Europe. Primary and General Secondary Education – 2021/22. Skýrslan byggir á upplýsingum sem þátttökulöndin hafa sjálf aflað og miðlað. Önnur skýrsla er einnig birt í dag með hliðstæðum upplýsingum um háskólastigið. 

Hvernig er skóladagatalið skipulagt í löndum Evrópu? Þótt nokkur blæbrigði séu milli landa, þá er fyrirkomulagið í heild svipað í þátttökulöndunum. Í Danmörku og Þýsklandi byrjar skólaárið fyrst allra. Fjöldi skóladaga í þátttökulöndum er breytilegur, t.d. eru skóladagar um 200 í Danmörku og á Ítalíu en aðeins 165 í Albaníu og á Möltu. Skóladagar á Íslandi skulu vera 180 á tímabilinu frá 20. ágúst til 10. júní. Þar af eru 170 dagar ætlaðir til  kennslu eða próftöku en 10 dögum varið til ýmissa athafna, þ. á m. skólasetningu og skólaslit, foreldradaga o.s.frv. 

Lítill munur er almennt milli landa á fjölda skóladaga á grunn- og framhaldsskólastigi. Í Frakklandi og Serbíu eru þó fleiri skóladagar á framhaldsskólastigi. Í Litáen og Rúmeníu eru fleiri skóladagar á unglingastigi og framhaldsskólastigi en á yngsta- og miðstigi grunnskóla. Þessar upplýsingar má skoða myndrænt í skýrslunni.  

Þátttökulöndin voru 37, þ. á m. 27 lönd Evrópusambandsins, Albanía, Bosnía og Hersegóvína, Sviss, Ísland, Liechtenstein, Svartfjallaland, Norður-Makedónía, Noregur, Serbía og Tyrkland.

Samsvarandi skýrsla um háskólastigið kemur einnig út nú 6. september 2021. Þar koma fram upplýsingar um upphaf og endi skólaárs, frí og prófatímabil. Mismunur milli háskóla og annarra skóla er einnig dreginn fram.

skrifað 06. SEP. 2021.