1. Forsíða
  2. Skýrsla um ástæður brotthvarfs úr framhaldsskóla

Skýrsla um ástæður brotthvarfs úr framhaldsskóla

Alls hættu 752 nemendur námi í framhaldsskóla áður en til lokaprófa kom á haustönn 2017 en þar af voru 403 eldri en 18 ára sem er sambærilegt hlutfall og á haustönn 2016. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu sem Menntamálastofnun hefur gefið út.

Þar kemur fram að flestir nemendur eða 213 hættu eða var vísað úr námi vegna brots á mætingar­reglum og þar af voru 80 nemendur á fræðsluskyldualdri.

Alls sagðist 141 nemandi hafa hætt vegna andlegra veikinda. Ef skoðaður er aldur þeirra sem hættu vegna andlegra veikinda má sjá að alls hættu 83 nemendur yngri en 18 ára vegna þessa á haustönn 2017 en 64 á haustönn 2016.

Í skýrslunni má finna skráningu á ástæðum brotthvarfs á haustönn 2017 en undanfarin ár hefur verið óskað eftir því að skólar skrái niður uppgefnar ástæður fyrir brotthvarfi frá þeim nemendum sem hætta námi áður en til lokaprófa kemur. Hafa ber í huga að ekki er hægt að draga ályktanir um hvort brotthvarf hefur aukist eða minnkað af þessum niðurstöðum þar sem skráningin nær ekki til þeirra nemenda sem hætta námi á milli anna.

Menntamálastofnun hefur að beiðni mennta- og menningarmálaráðuneytisins haft umsjón með verkefninu Aðgerðir gegn brotthvarfi í framhaldsskólum. Verkefnið er til þriggja ár, frá 2016-2018 og er því ætlað að styðja við markmið Hvítbókar um umbætur í menntun. Verkefnið byggir í megindráttum á þremur þáttum þ.e. skimun fyrir brotthvarfi, styrkveitingum til framhaldsskóla vegna aðgerða gegn brotthvarfi og skráningu á ástæðum brotthvarfs.

skrifað 22. FEB. 2018.