Út er komin skýrsla um ytra mat á listdansskólum sem Menntamálastofnun vann haustið 2022 fyrir mennta-og barnamálaráðuneytið.
Þeir skólar sem voru metnir eru Listdansskóli JSB, Klassíski listdansskólinn, Listdansskólinn Óskandi og Listdansskóli Íslands. Niðurstöður eru birtar fyrir hvern skóla um sig.
Skýrslan varpar ljósi á ýmsa þætti í starfi skólanna, dregnir eru fram helstu styrkleikar og settar fram tillögur til umbóta.
Skýrslan byggir m.a. á niðurstöðum matsaðila á skólanámskrám, framsetningu markmiða, námsgögnum, námsmati, kennsluáætlunum og mati á kennslustundum. Þá var lagt mat á menntun og starfsreynslu starfsfólks, aðstöðu, aðbúnað kennara og nemenda, innttökuskilyrði, skólabrag, samskipti, líðan og aga, auk foreldrasamstarfs.