Ásthildur Snorradóttir, talmeinafræðingur og Menntamálastofnun skrifuðu í dag undir samning um samstarf við innleiðingu á snemmtækri íhlutun varðandi mál og læsi í leikskólum.
Samkvæmt samningnum munu Ásthildur og stofnunin hafa leiðandi hlutverk í innleiðingu á snemmtækri íhlutun en í samræmi við niðurstöður rannsókna er hægt að draga úr lestrarörðugleikum.
Handbók verður útbúin með skilgreiningum á málþáttum, undirstöðuþáttum fyrir lestur, verkferlum samvinnu sérfræðinga og gagnreyndum og hagnýtum úrræðum. Menntamálastofnun mun gefa út handbókina og verður hún aðgengileg fyrir allt starfsfólk leikskóla á vef stofnunarinnar.
Þá verður útbúið vefefni tengt snemmtækri íhlutun ásamt upptökum á myndefni. Unnið verður út frá hugmyndum sem settar voru fram í Hvítbók mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Samastarfið gengur út á vinnu með leikskólum og sveitarfélögum við innleiðingu snemmtækrar íhlutunar og eflingu máls og læsis í leikskólum næsta vetur. Auglýst verður eftir þátttöku sveitafélaga á næstunni.