1. Forsíða
  2. Sögur - handritasamkeppni fyrir börn

Sögur - handritasamkeppni fyrir börn

Í vetur standa Menntamálastofnun, KrakkaRÚV og SÍUNG fyrir ævintýralegu ferðalagi um sagnaheim 6-12 ára barna. Verkefnið kallast Sögur og markmið þess er að auka lestur og  menningarlæsi barna, hvetja börn til sköpunar, styðja íslenska barnamenningu og hvetja til þess að fleiri sögur verði sagðar.

Verkefnið er unnið í samstarfi við fjölda aðila sem eru áhugasamir um að nýta töfra KrakkaRÚV til að byggja brú milli heimilis og skóla og auka  þannig  áhuga og þátttöku barna í fjölbreyttum læsisverkefnum. Samstarfsaðilarnir eru eftirfarandi; Barnamenningarhátíð, bókasöfnin í landinu, Miðja máls og læsis, Miðstöð skólaþróunar við HA og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Einnig hafa Borgarleikhúsið og Þjóðleikshúsið sýnt verkefninu áhuga.

Ferðalaginu lýkur með verðlaunahátíðinni SÖGUR – verðlaunahátíð barnanna, í beinni útsendingu á RÚV í lok apríl 2018. Á hátíðinni verða veitt verðlaun fyrir útgefið efni og frumsamið efni frá börnum í þremur flokkum. Þeir eru bókmenntir, leikið efni og efni fyrir sjónvarp, og tónlist.

KrakkaRÚV mun framleiða margskonar skemmtilegt og fræðandi efni sem tengist verkefninu.

Fyrsta útfærsla verkefnisins hefur litið dagsins ljós. Stundin okkar stendur nú fyrir handritasamkeppni fyrir börn á aldrinum 6-12 ára. Nokkur vel valin handrit eftir börn verða síðan unnin í stuttmyndir sem sýndar verða í Stundinni okkar.

Þeir sem vilja sjá söguna sína lifna við í Stundinni okkar geta sent hana inn á KrakkaRÚV.

skrifað 09. NóV. 2017.