1. Forsíða
  2. Þátttaka framar öllum vonum

Þátttaka framar öllum vonum

Þátttaka á málþinginu Snemmbær stuðningur í hnotskurn var framar öllum vonum og þökkum við þeim fjölmörgu sem tóku þátt. Yfir 250 manns tengdust málþinginu sem var haldið rafrænt í dag. Málþinginu var gerður góður rómur og þátttakendur ánægðir með það samtal og samstarf sem verkefnið leggur grunn að í leikskólasamfélaginu. Þá kom fram hvað góð samvinna skiptir verkefnið miklu máli líkt og einkenndi samstarf við Mosfellsbæ, Fjarðabyggð og Ásthildi Bj. Snorradóttur.

Á málþinginu var kynnt verkefnið Snemmbær stuðningur í leikskóla – læsi til framtíðar sem er samstarfverkefni við Talstúdíó Ásthildar Bj. Snorradóttur. Markmið þess er að öll börn í leikskólum á Íslandi nái góðum árangri hvað varðar mál, tal, boðskipti og læsi.

Um er að ræða samstarfsverkefni sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur falið Menntamálastofnun og er hugsað til þriggja ára eða frá 2021 - 2023. Fyrirhugað er að hefja samstarf við sveitarfélög og leikskóla hverju ári. Nú á vordögum hefst samstarf við átta sveitarfélög og leikskóla.

Sveitarfélögum og leikskólum býðst að óska eftir samstarfi með því að senda umsókn á [email protected].

Á Fræðslugátt Menntamálastofnunar hefur nú verið bætt við leikskólastigi þar sem upplýsingar um verkefnið er að finna auk handbóka þeirra leikskóla sem hafa tekið þátt í þróunarverkefninu og verkfærakistu leikskólans sem inniheldur áður útgefið efni Menntamálastofnunar og getur nýst leikskólum.  

skrifað 16. APR. 2021.