1. Forsíða
  2. „Tungumálið er eins og ofurmáttur“

„Tungumálið er eins og ofurmáttur“

„Tungumálið er eins og ofurmáttur. Þú ert ofurhetja með tungumálið í höndunum,“ er meðal þess sem kom fram í erindi Davíðs Stefánssonar, rithöfundar. Davíð var einn þeirra sem flutti erindi á fjölmennu ritunarþingi sem var ætlað að vekja athygli á ritun í grunnskólum, hvar við stöndum og hvert við stefnum. Þingið fór fram miðvikudaginn 11. apríl í Réttarholtsskóla.

Benedikt Gylfason, nemandi í 10. bekk í Réttarholtsskóla setti þingið og fjallaði um hvað ritun væri mikilvæg ungu fólki nú þegar umræða um ungt fólk er iðulega neikvæð í fjölmiðlum. Þar sé rætt um að námsárangur íslenskra nemenda sé slakari en hjá nágrannalöndum, aukinn kvíði og þunglyndi hrjái nemendur og brotthvarf úr framhaldsskólum sé hátt. Þá sé mikilvægt að unga fólkið geti verið virkir þátttakendur í umræðunni og geti talað sínu máli. Með kennslu og þjálfun í ritun er nemendum gefið tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og láta raddir sínar heyrast.

Eftir framsöguerindi um ritun svöruðu þinggestir spurningum sem brenna á skólafólki og teknar voru saman helstu niðurstöður sem verður unnið áfram með. Þörfum skólasamfélagsins mun verða mætt í framhaldinu með námskeiðum fyrir kennara, útgáfu námsefnis í ritun og stuðningi við nemendur. Samfélagið mun fljótlega verða vart við undiröldu, sem hvetur einstaklinga til að skrifa, í hvaða formi sem það er, út frá eigin reynslu og hugmyndum.

Að þinginu stóðu Félag fagfólks á skólasöfnum, Háskóli Íslands, Kennarasamband Íslands, Menntamálastofnun, Rithöfundasamband Íslands, Samtök móðurmálskennara og Sögur – Samtök um barnamenningu.

Gestir sem sóttu þingið eiga þakkir skilið fyrir gott samtal, frjóar umræður og þarfar ábendingar. Þeir sem vilja koma fleiri hugmyndum á framfæri geta sent þær á [email protected].

Dagskrá ritunarþings

Upptaka af einstökum erindum:

Benedikt Gylfason

Davíð Stefánsson

Karen Rut Gísladóttir

Þóra Hjörleifsdóttir

Hrefna Birna Björnsdóttir

Upptaka af ritunarþinginu í heild

     

    
 
     
 
     
 
     
 
skrifað 12. APR. 2018.