Um gjörvalla Evrópu eru nú stórir hópar barna og ungmenna frá Úkraínu sem flúið hafa heimili sín vegna stríðsátaka þar í landi. Í mörgum tilfellum er um að ræða grunn- og framhaldsskólanemendur sem hafa brýna þörf fyrir skólavist. Eins eru í þessum hópi ungmenni sem neyðst hafa til að hætta háskólanámi eða slá því á frest um óákveðinn tíma.
Menntamálayfirvöld Evrópuríkja hafa tekið saman tvær skýrslur um það hvernig þeim hefur gengið að takast á við þá áskorun að taka á móti stórum hópum barna og ungmenna á flótta frá Úkraínu og veita þeim ýmsan stuðning varðandi aðgengi að námi og tækifæri með nauðsynlegum sveigjanleika til að halda áfram námi. Í þessum tveimur Eurydice-skýrslum er dregin upp mynd af því hvernig menntayfirvöld í Evrópu, meðal annars íslensk stjórnvöld, hafa brugðist við þessari miklu áskorun. Fjallar önnur skýrslan um háskólastigið en hin um grunn- og framhaldsskólastigið. Viðmiðunartímabilið er skólaárið 2021-2022.