Fjöldi nemenda sem nýtir sér stuðningsúrræði á samræmdum könnunarprófum hefur aukist undanfarin ár en í nýlokinni fyrirlögn voru um 30 prósent nemenda með stuðningsúrræði. Árið 2011 var hlutfallið 19,4 prósent. Þetta kemur fram í samantekt Menntamálastofnunar á samræmdum könnunarprófum sem lögð var fram á fundi með allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í morgun.
Í samantektinni er meðal annars fjallað um breytingar á samræmdu könnunarprófunum sem snúa að ritun og ástæður þess að notaðar voru fleiri en eina prófútgáfa. Þá er farið yfir það hvernig framkvæmdin gekk fyrir sig, þau úrlausnarefni sem komu upp og hvernig þau voru leyst.
Hvað varðar tengsl samræmdra könnunarpróf við innritun í framhaldsskóla er áréttað að framhaldsskólar fá ekki sjálfgefinn aðgang að einkunnum nemenda. Tveir framhaldsskólar hafa birt upplýsingar á heimasíðum um að þeir muni hugsanlega nýta sér þessi tilteknu viðbótargögn eingöngu í þeim tilvikum þegar velja þarf á milli margra nemenda með sömu eða sambærilegar skólaeinkunnir. Skólaeinkunnir grunnskóla munu eftir sem áður fyrst og fremst liggja til grundvallar inntöku skólanna.