1. Forsíða
  2. Úrslit Ljóðaflóðs

Úrslit Ljóðaflóðs

Úrslit í ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóð 2021, liggja nú fyrir. Menntamálastofnun, í samstarfi við Krakkarúv, efndi til keppninnar í tilefni af degi íslenskrar tungu. Í keppninni var ljóðformið frjálst og ánægjulegt að sjá hversu fjölbreytt ljóð bárust, bæði hvað varðar form og innihald en nemendur ortu m.a. um samskipti, veiruna, umhverfismál, náttúruna, vináttu, tilgang lífsins, ástina, tilfinningar og jafnrétti.

Nemendur sömdu bæði bundin og óbundin ljóð, hækur og myndljóð en alls bárust 503 ljóð frá 25 skólum víðs vegar að af landinu. Frá yngsta stigi bárust 55 ljóð, 191 frá miðstigi og 257 ljóð frá unglingastigi.

Einum nemanda á hverju stigi voru veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjal fyrir besta ljóðið en vinningshafarnir eru:

Þórarinn Hauksson, nemandi í 4. bekk Álftamýrarskóla, fyrir ljóðið Skólalóðin. Í umsögn dómnefndar segir: Í ljóðinu er áhugaverð notkun myndmáls þar sem krakkar kjaga um í frosti og minna helst á mörgæsir. Síðustu tvær ljóðlínurnar eru áhrifamiklar, víkka ljóðið út og veita því dýpt.
Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á yngsta stigi má sjá hér.

Sóldís Perla Marteinsdóttir, nemandi í 7. bekk Ártúnsskóla, fyrir ljóð sitt. Í umsögn dómnefndar segir: Ljóðið býr yfir dulúð og von. Uppbygging þess er vel skipulögð og flott, auk þess sem það hefur skýra innri tímaframvindu sem fólgin er í lögmálum sólarinnar á norðurhveli jarðar. 
Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á miðstigi má sjá hér.

Embla Bachmann, nemandi í 10. bekk Ingunnarskóla, fyrir ljóð sitt úti er ævintýri. Í umsögn dómnefndar segir: Úti er ævintýri leikur á nútímalegan hátt með þekkt ævintýraminni og lítur á gömlu sögurnar með augum ungrar manneskju. Framsetning textans er öguð og býr jafnframt yfir hárbeittu orðavali. Notkun þátíðar í lokaerindi ljóðsins er mjög snjöll og eykur enn á upplifun og hughrif lesanda.
Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á unglingastigi má sjá hér.

Verðlaunaljóð í ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóð 2021:

Skólalóðin

Hóllinn er ekki hóll
hann er mannbyggður hóll
krakkarnir klifruðu upp  

litu út eins og
mörgæsir 

Hóllinn var brattur og sleipur 
Í fimm mínútur 
voru engir ruddar í rennibrautinni 

                    Þórarinn Hauksson, verðlaunahafi á yngsta stigi

 

Sólin ei sest
þótt kvölda taki
það er komið vor.

Vindurinn dansar
á háu fjalli
ég sé þig þar.

Þótt kalt sé nú
á hljóðri vetrarnótt
mun ávallt vora aftur.

Sólin er sofnuð
máni tekur völd
með kaldri golu.

                         Sóldís Perla Marteinsdóttir, verðlaunahafi á miðstigi

 

úti er ævintýri 

prinsinn vakti mig af blundi
með kossi grófum og blautum
bað mig um að spila lag
með gítar, trommum og flautum

ég elda fyrir hann
og sjö litla gesti
þeir eru allir dónar
en prinsinn er sá versti

engu ég fæ að ráða sjálf
hann lætur mig ei vera
biður mig um að sitja stillt
og láta lítið á mér bera

ég beit alltaf á jaxlinn
fékkst aldrei til að kvarta
en að lokum fannst prinsinn dauður
stunginn með glerskó í hjarta

                    Embla Bachmann, verðlaunahafi á unglingastigi

Menntamálastofnun óskar vinningshöfum til hamingju með frábæran árangur og þakkar grunnskólanemum og kennurum fyrir þátttökuna. Það er von okkar að ljóðasamkeppnin Ljóðaflóð verði nemendum hvatning til að virkja sköpunarmátt sinn og muni efla ljóðlistina í grunnskólum landsins.

 

 

 

 

skrifað 20. JAN. 2022.