1. Forsíða
  2. Úrslit Ljóðaflóðs

Úrslit Ljóðaflóðs

Úrslit í ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóði 2023, liggja nú fyrir. Menntamálastofnun, í samstarfi við KrakkaRÚV, efndi til keppninnar í tilefni af degi íslenskrar tungu. Í keppninni var ljóðformið frjálst og ánægjulegt að sjá hversu fjölbreytt og vönduð ljóð bárust. Nemendur sömdu bæði bundin og óbundin ljóð um ástina og lífið, frið, einelti, samkennd, tilfinningar, náttúruna o.fl. Alls bárust 242 ljóð frá 23 skólum víðs vegar að af landinu. Frá yngsta stigi bárust 20 ljóð, 113 frá miðstigi og 109 ljóð frá unglingastigi.

Einum nemanda á hverju stigi var veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjal fyrir verðlaunaljóð en vinningshafarnir eru:

Páll Ingi Einarsson, nemandi í 2. bekk Selásskóla í Reykjavík, fyrir ljóð um lífið. Í umsögn dómnefndar segir: Fallegt ljóð sem er í senn einfalt og áhrifamikið. Það vekur upp hughrif vonar og bjartsýni og minnir á að í heiminum er pláss fyrir alla.

Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á yngsta stigi má sjá hér.

Anton Vyplel, nemandi í 7. bekk Háaleitisskóla á Ásbrú, Reykjanesbæ fyrir ljóðið Ástin mín. Í umsögn dómnefndar segir: Hugljúft og einlægt ljóð sem tjáir ást og kærleika. Það lýsir á hjartnæman hátt fallegu sambandi móður og barns.

Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á miðstigi má sjá hér.

Sigrún Marta Arnalds, nemandi í 9. bekk Hlíðaskóla í Reykjavík, fyrir ljóð sitt Vængjalaus.

Í umsögn dómnefndar segir: Frumlegt ljóð þar sem dregin er upp einföld en sterk mynd sem helst í gegnum allt ljóðið. Það er í senn tregafullt og kómískt með endi sem kemur skemmtilega á óvart.

Önnur ljóð sem voru á meðal þeirra bestu á unglingastigi má sjá hér.

Verðlaunaljóð í ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóði 2023:

Lífið er fyrir alla,
lífið mun vera í okkur
hversu lengi sem við erum með von í hjartanu.     
Páll Ingi Einarsson, verðlaunahafi á yngsta stigi

Ástin mín

Mamma er ástin mín,
hún er fín.
Ég elska hana mikið,
því hún gaf mér lífið.

Hún er fyndin,
falleg eins og myndin.
Hennar hjarta er gott
og mér finnst það bara flott.

Ég mun vera góður – mamma
og þú munt aldrei mig – skamma.
Ég gef þér hjarta mitt,
ég mun alltaf vera barnið þitt.
Anton Vyple, verðlaunahafi á miðstigi

Anton sendi einnig inn ljóðið á sínu móðurmáli, slóvakísku:

Láska moja

Mamma je láska moja,
ona je milá.
Ja ľúbim ju veľa,
lebo mi dala život.

Ona je smiešna,
pekná ako obrazok.
Jej srdce je dobré
a podľa mňa je to skvelé.

Ja budem dobrý - mama
a ty ma už nikdy – nevyhrešis.
Dám ti moje srdce,
a ja budem vždy tvoje dieťa.

Vængjalaus

ég ligg uppi í rúmi vonlaus
eins og köttur sem missti af fuglinum
þú flaugst í burtu frá mér
en ég stend ein eftir á jörðinni

ég fer út í búð til að kaupa vængi,
vildi vera eins og þú
en þeir búa ekki til vængi fyrir ketti
eins og mig
Sigrún Marta Arnalds, verðlaunahafi á unglingastigi

Menntamálastofnun óskar vinningshöfum til hamingju með frábæran árangur og þakkar grunnskólanemum og kennurum fyrir þátttökuna. Það er von okkar að ljóðasamkeppnin Ljóðaflóð verði nemendum hvatning til að virkja sköpunarmátt sinn og muni efla ljóðlistina í grunnskólum landsins.

skrifað 26. JAN. 2024.