1. Forsíða
  2. Valkvæð samræmd könnunarpróf og fyrirlögn þeirra

Valkvæð samræmd könnunarpróf og fyrirlögn þeirra

Í dag hefur Menntamálastofnun fundað með aðilum skólasamfélagsins um þá breytingu sem hefur orðið á fyrirlögn samræmdra könnunarprófa.

Þar kom fram almenn sátt um þá ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra að aflýsa heildstæðri rafrænni fyrirlögn prófanna en veita jafnframt nemendum kost á að þreyta prófið með valkvæðum hætti. Þá var einnig einhugur um að horfa til framtíðar, vinna saman og leggja áherslu á frekara samtal um þróun námsmats.  

Menntamálastofnun vinnur nú að fyrirlögn prófanna á pappír. Fyrirlagnartímabilið verður frá 17. mars til 30. apríl nk.

Nemendur geta valið um þátttöku í könnunarprófum í íslensku, stærðfræði og ensku. Nemendur, að höfðu samráði við forsjáraðila, taka ákvörðun um hvort þeir vilji fara í próf og láta skólastjórnendur vita.

Vakin er athygli á að Menntamálastofnun hefur uppfært upplýsingar í Spurt og svarað á heimasíðu sinni. Þar eru svör við mörgum spurningum.

Í samræmi við ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins munu nemendur sem sendu inn niðurstöður úr íslenskuprófinu fá einkunn og er gert ráð fyrir að hún verði aðgengileg í Skólagátt fyrir 17. mars nk. Þannig er hægt að hafa hana til hliðsjónar við ákvörðun um próftöku. Kjósi nemendur að þreyta íslenskuprófið aftur gildir einkunnin úr síðara prófinu.

Allir nemendur sem taka könnunarprófin á pappír fá einkunnir úr prófunum og verða þær aðgengilegar í Skólagátt innan fjögurra vikna frá próftöku.

Menntamálastofnun leggur áherslu á gott samráð við skólasamfélagið og að lágmarksröskun verði á skólastarfi hjá þeim skólum sem munu leggja prófin fyrir. Mikilvægt er að hagsmunir nemenda séu hafðir að leiðarljósi. 

skrifað 12. MAR. 2021.