Í ljósi fréttar um niðurstöður samræmdra könnunarprófa sem birtist í Fréttablaðinu og á vísir.is miðvikudaginn 29. nóvember vill Menntamálastofnun koma eftirfarandi á framfæri.
Í umræddri frétt ræðir blaðamaður við sviðsstjóra matssviðs Menntamálastofnunar. Sviðsstjórinn fjallar með almennum hætti um markmið samræmdra prófa og ýmislegt uppbyggilegt sem má nota úr niðurstöðum samræmdra könnunarprófa. Blaðamaður ákveður hins vegar sjálfur að bæta við upplýsingum um þá skóla sem voru með slökustu frammistöðuna í samræmdum könnunarprófum í haust. Þessi nálgun blaðamanns, að taka fram sérstaklega skóla með þessum hætti, er þvert á áherslur stofnunarinnar.
Menntamálastofnun undirstrikar mikilvægi þess að varlega sé farið í að túlka niðurstöður einstakra skóla eða sveitarfélaga þar sem stærð skóla, þátttökuhlutfall nemenda, fjöldi nemenda með íslensku sem annað tungumál og annar breytileiki getur haft áhrif á niðurstöður.
Lögð er áhersla á að samræmd könnunarpróf séu nýtt með nemendum, foreldrum og kennurum til að veita endurgjöf og breyta kennsluáherslum ef þess er þörf. Mikilvægt er að prófin séu notuð til stefnumótunar, samhliða öðru námsmati og innra mati, til að móta áherslur í kennslu og bæta velferð nemenda. Ekki er mælt með því að einstakar niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum séu notaðar til að bera saman skóla og benda á hver er með slökustu frammistöðuna þetta árið þar sem aðstæður skóla eru ólíkar og eins getur frammistaða verið mjög breytileg á milli ára hjá einstaka skóla.
Þá skal tekið fram að upplýsingar um niðurstöður skóla má finna í skýrslugrunni Menntamálastofnunar. Niðurstöðurnar eru opinber gögn sem Menntamálastofnun ber að hafa aðgengileg samkvæmt upplýsingalögum.