1. Forsíða
  2. Velheppnaður ársfundur

Velheppnaður ársfundur

Velheppnaður fyrsti ársfundur Menntamálastofnunar fór fram 23. október en um 60 manns sóttu fundinn. Yfirskrift fundarins var Eiga skólar að ráða sér sjálfir? - Frelsi og stýring í grunn- og framhaldsskólum.

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra hélt ávarp um þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í menntamálum og má þar nefna laun á leik- og grunnskólastigi, nýliðunarvanda í stéttinni og stöðu barna með annað móðurmál en íslensku. Hennar framtíðarsýn er að Ísland verði fremst Norðurlanda í menntamálum árið 2030.

Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar kynnti stefnu stofnunarinnar sem er nýkomin út og fór yfir helstu atriði hennar. Stefnan markar áfanga í uppbyggingu Menntamálastofnunar sem hófst fyrir þremur árum.  

Fyrirlesarar voru Kolfinna Jóhannesdóttir, sviðsstjóri greiningarsviðs og Erling R. Erlingsson, sviðsstjóri miðlunarsviðs. Þau ræddu um frelsi og stýringu á framhaldsskólastigi annars vegar og grunnskólastigi hins vegar.

Í pallborði sem efnt var til í kjölfar erindis Kolfinnu sátu Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ og Lára Stefánsdóttir, skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga.

Í pallborði um frelsi og stýringu í grunnskólum sátu Aðalbjörg Ingadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, Sigurður Arnar Sigurðsson, skólastjóri Grundaskóla, Svandís Ingimundardóttir, skólamálafulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, formaður Félags grunnskólakennara. 

 

Hér má horfa á upptöku af fundinum í heild sinni.

Stefna Menntamálastofnunar

Ársrit Menntamálastofnunar

 

 

          

  

          

          

          

          

 

 

 

 

 

skrifað 24. OKT. 2018.