1. Forsíða
  2. Viðkæm álitamál eiga erindi við ungmenni

Viðkæm álitamál eiga erindi við ungmenni

Menntamálastofnun hefur gefið út tvær handbækur, sem eiga að auðvelda kennurum og skólastjórnendum að undirbúa fræðslu um viðkvæm álitamál, s.s. öfgaskoðanir, sjálfsskaða eða kynverund. 

Önnur handbókin ber yfirskriftina Viðkvæm álitamál og nemendur og er einkum ætluð kennurum. Hin handbókin, Stjórnun á tímum ágreinings og átaka, er handbók fyrir skólastjórnendur.

Lengi vel þótti óráðlegt að ræða við ungmenni í skólum um viðkvæm álitamál, þar sem talið var umræðan gæti leitt til óæskilegra hugmynda og hegðunar meðal ungs fólks. Með aukinni þekkingu og færni til að ræða flókin viðfangsefni hafa slík viðhorf smám saman vikið fyrir víðsýnni sjónarmiðum. Einstaka skólastjórnendur og kennarar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að ræða viðkvæm álitamál við sína nemendur, en hafa ekki getað stuðst við samræmdar leiðbeiningar eða kennsluefni. Tækifæri ungmenna til að tjá sig í skólum um viðkvæm álitamál hafa því verið misjöfn og víða engin. Með útgáfu handbókanna er stigið mikilvægt skref til að breyta því.

Auk Menntamálastofnunar komu Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Guðrún Ebba Ólafsdóttir, grunnskólakennari, að útgáfunni. Við handbókagerðina var stuðst við handbækur sem voru hluti af aðgerðaáætlun Evrópusambandsins og Evrópuráðsins um lýðræði og mannréttindi. Norræna ráðherranefndin styrkti útgáfu íslensku handbókanna, sem er hægt er að finna á vef Menntamálastofnunar.

Hér má lesa grein Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur um viðkvæmt álitamál sem birtist í Morgunblaðinu 3. apríl 2019.

                    

          

 

 

skrifað 03. APR. 2019.